Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:08:42 (2768)

1999-12-10 22:08:42# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að hrósa hv. þm. Árna Johnsen. Ég held að hann hafi fundið upp nýyrði. Ég man ekki eftir þessu tunguflæði. Gott ef þetta er ekki bara nýyrði, herra forseti. Enn kemur hv. þm. Árni Johnsen manni á óvart með snilld sinni og hann reynist þá nýyrðasmiður í viðbót við allt hitt.

Auðvitað hlýt ég að þakka hv. þm. fyrir að ætla að gera mig ódauðlegan í stjórnmálum því hann spáir því að ég muni tala úr þessum stóli öldum saman. Ég er ekki viss um að ég hafi áhuga á því. En svona 50--70 ár gæti verið gaman að vera í þessu. Ef ég tala dálítið mikið, þá erum við a.m.k. góðir að meðaltali, ég og hv. þm. Árni Johnsen, því hann talar hér um bil aldrei neitt og það er kannski eins gott.