Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:09:48 (2769)

1999-12-10 22:09:48# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því hjá hv. þm. að hann taldi að með þessari breytingu á fjárlögunum, þessari aukningu til sjúkrahúsanna, væri verið að færa hlutina til rétts vegar núna og ég ætla að vona að þetta standist á. Hvernig má það þá vera að þetta sé þensluhvetjandi, eins og stendur í áliti minni hlutans, að þessi stórkostlega aukning ríkisútgjalda sé beinlínis þensluhvetjandi fyrir efnahagslífið ef þetta lá alltaf í pípunum og hér var bara verið að gangast undir það að hafa þetta rétt? Ég trúi því þá að hv. þm. sé ekki sammála þessu nefndaráliti minni hlutans sem ég er með fyrir framan mig.

Ég hjó líka eftir því að hv. þm. sagði að skattalækkunin fyrir tveim eða þrem árum hefði verið mistök og að betra væri að hafa þessa peninga í ríkissjóði núna. Það sagði hann orðrétt. Nú spyr ég hv. þm.: Væri hann þá kannski tilbúinn til þess að styðja flata skattahækkun? Það gæti komið til þess í hvaða ríki sem er að það þyrfti að hækka skattana flatt. Svo ég orði það nú svo snilldarlega rétt eins og áðan, þá eru nú til ýmsar aðferðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs.

Það gæti alveg komið til þess að þetta samfélag þyrfti að hækka skatta sína og það væri heilmikil pólitísk yfirlýsing ef hún kæmi frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri grænna, að hann væri nú þegar reiðubúinn til að styðja það því það hefði verið betra að sleppa því að lækka skattana og hækka svo mjög kaupmátt Íslendinga eins og raun varð í kjölfar skattalækkananna.