Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:22:07 (2777)

1999-12-10 23:22:07# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:22]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þm. séum sammála um markmið. Það er vissulega rétt að það er hópur fólks sem nær sér ekki upp á vinnumarkaði, það er alveg rétt, mér er það fullljóst. Það verður að vera öryggisnet í samfélaginu um það fólk. Lífeyrissjóðakerfið gagnast ekki öllum, við erum sammála um það.

Ekki liggur fyrir ákvörðun um hversu mikið bætur verða hækkaðar umfram lögbundna hækkun, ég hef ekki svör við því hér og nú. En ég endurtek það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu að þessi tryggingamál eru og verða til skoðunar. Það eru önnur verkefni í heilbr.- og trn. sem fjármunir verða settir í núna, eins og hefur svo mjög verið til umræðu, bæði við fjáraukalög og við fjárlög. Það er vonandi að við náum utan um þann vanda og við getum snúið okkur að tryggingahluta heilbrrn. til að taka þar á og lagfæra það sem út af stendur því að við höfum þau sameiginlegu markmið að bæta afkomu þeirra sem verst eru settir í samfélaginu. Ég held að við þurfum ekkert að deila um það. Spurningin er hversu hratt það er gert og hvaða málefni hafa forgang. En það er alveg ljóst að við þessa fjárlagagerð hafði heilbrigðisþátturinn forgang varðandi fjárútlát, það liggur fyrir í þeim tillögum sem hér eru.