Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:26:27 (2779)

1999-12-10 23:26:27# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ræðuna. Hv. þm. hefur gjarnan látið sig varða málefni aldraðra og öryrkja og er það gott. Hv. þm. hlýtur að gleðjast yfir ákveðnum áherslubreytingum ríkisstjórnarinnar varðandi velferðarkerfið og heilbrigðismálaþáttinn í fjárlagafrv. vegna þess að þingmaðurinn hefur margoft rætt þessi mál. Ég veit að það er afar góð hugsun á bak við það sem hv. þm. er að tala um. Hins vegar talar hv. þm. gjarnan þannig að hún dregur fram þá allra dekkstu mynd sem hægt er að draga fram. Við búum í samfélagi þar sem auðvitað eru mýmörg verkefni sem verður að takast á við.

Ég þekki býsna vel til á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, og ég er alveg viss um að velferðarkerfið okkar er alls ekki verra en þar, mikið langt frá því. Ég þekki líka og er í góðu sambandi við mjög margt gamalt fólk. Eldri borgarar á Íslandi eru sem betur fer mjög margir heilbrigðir og hressir og það pirrar þá marga hvernig talað er til þeirra, alltaf eins og þeir séu bláfátækir og eigi ekki fyrir nauðþurftum o.s.frv. Það eru mjög margir aldraðir sem eru afar óánægðir með það á hvern hátt talað er um þá.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að í þeim hópi eins og í öðrum hópum þjóðfélagsins er fólk sem hefur það ekkert allt of gott.