Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 23:31:06 (2781)

1999-12-10 23:31:06# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[23:31]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu áðan þá veit ég að hv. þm. gengur allt gott til í umræðu þessari. Hv. þm. sagði reyndar að hún drægi ekki fram dekkstu myndir í þjóðlífinu en það er í raun og veru alveg sama hvar við tökum myndir úr þjóðlífinu, við getum alltaf fundið mjög drungalegar og dökkar myndir. Ég geri mér afar vel grein fyrir því að fullt af fólki á Íslandi, eins og annars staðar, hefur það ekki nógu gott, því miður. Það á við um lífeyrisþega og marga fleiri. Ég geri mér grein fyrir því.

Þegar við horfum á myndina í heild sinni þá megum við hins vegar passa okkur á því að alhæfa ekki um fólk t.d. með því að afgreiða alla aldraða á sama hátt eða afgreiða ákveðna aldurshópa á sama hátt. Við getum fundið fullt af barnungu fólki í þjóðfélaginu sem er bláfátækt. Það á við um miðaldra fólk líka og það á við um ellilífeyrisþega. Ég geri mér grein fyrir því. Reyndar hefur þingmaðurinn mjög gjarnan tekið upp einstök mál einstaklinga hér í þingsölum, og það er um margt vel, ýmis bréf sem berast okkur og þess háttar þannig að hv. þm. hefur dregið þetta upp. En það er líka hættulegt á vissan hátt að tala eins og þetta eigi við um alla.

Ég endurtek að ég er ekkert illa að mér um málefni aldraðs fólks, lífeyrisþega og almennra borgara á Norðurlöndum. Ég fullyrði að á margan hátt er kerfið okkar, t.d. heilbrigðiskerfið, betra en á mörgum stöðum á Norðurlöndum.