Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:37:11 (2859)

1999-12-14 13:37:11# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér heyrist á hv. fulltrúa minni hlutans í fjárln. sem hér talaði að allt sé bókstaflega í uppnámi í fjárln., að þar eigi að keyra málin í gegn óskoðuð og þingmenn fái ekki í hendur nauðsynleg gögn sem þeir biðja um.

Mér virðist hið sama uppi á teningnum í efh.- og viðskh. og þar sé allt í uppnámi líka. Þar er fyrirvaralaust boðað til fundar í morgun og fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni fengu ekki þau boð fyrr en fundi var að ljúka um eittleytið. Þá fengum við, ég og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, fyrst vitneskju um þennan fund. Ég hef spurnir af því að á þessum fundi átti að klára yfirferð nefndarinnar yfir fjárlög fyrir árið 2000, áhrif skattalagabreytingar á tekjur ríkissjóðs, breytta þjóðhagsspá og þjóðhagsforsendur, allt þetta á einum klukkutíma. Þetta er í fyrsta skipti í vetur sem efh.- og viðskn. fer yfir tekjuhlið fjárlagafrv. og breytta þjóðhagsspá. Við hljótum að þurfa mjög rúman tíma til að ræða svo viðamikil mál í nefndinni. Við þurfum tíma til að kalla fyrir okkur þá fulltrúa sem við teljum þörf á að komi fyrir nefndina áður en við myndum okkur skoðun á þessum þætti fjárlaganna og tekjuspánni. Þess vegna mótmæli ég þessum vinnubrögðum.

Formaður nefndarinnar er erlendis, varaformaðurinn er erlendis og við höfðum frétt að engan fund ætti að boða í nefndinni fyrr en þeir kæmu til baka. Þessi fundur í morgun var boðaður án fyrirvara og starfandi formaður í nefndinni ætti að sjá til að allir fulltrúar nefndarinnar fengju boðin þegar svo óvænt er boðað til fundar. Það eru miklar annir í þinginu. Þingmenn þurfa að skipuleggja tíma sinn vel og því er nauðsynlegt að sjá til að boðin komist til skila. Ég óska eftir því að þessi fundur verði endurtekinn og þeir kallaðir til aftur sem voru á þessum fundi í morgun eða í hádeginu. Ég tek undir það með formanni fjárln. að gera þurfi hlé á þingstörfum. Nefndir þingsins sem eru að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrv. þurfa að fá eðlilegt svigrúm til að fjalla um það mál.