Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:39:29 (2860)

1999-12-14 13:39:29# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir að það eru aldeilis ómögulegar aðstæður sem hér eru skapaðar fyrir lokaafgreiðslu fjáraukalaga- og fjárlagafrv. Ég náði að vísu til hins sögulega fundar í efh.- og viðskn. í hádeginu. Þar kom forstöðumaður tekjusviðs fjmrn. og tilkynnti áhrif af breyttum þjóðhagsspám eða forsendum í drögum hjá Þjóðhagsstofnun á tekjuhlið fjárlagafrv. Þar er tilhlaup upp á marga milljarða kr. Ég krafðist þess að fulltrúi frá Þjóðhagsstofnun kæmi til fundarins. Þá var komin frá Þjóðhagsstofnun og kynnt ný þjóðhagsspá í trúnaði vegna þess að það má ekki birta hana fyrr en eftir klukkan 4 í dag, eftir lokun Verðbréfaþings.

Staðan er því sú, á þeim tíma sem menn ætluðu að afgreiða fjáraukalög og ganga frá nefndarálitum fyrir fjárlagafrv., að Þjóðhagsstofnun er enn með þjóðhagsspá sína bundna trúnaði af því að hún hugsaði sér ekki að kynna hana fyrr en á morgun. Hvað sem líður því að menn hafi ætlað sér að afgreiða hlutina samkvæmt þingsköpum á tilskildum fresti þá er ljóst að þær stofnanir úti í bæ sem vinna upplýsingar fyrir þessa afgreiðslu hafa ekki áttað sig á því. Við erum hér í raun nokkrum sólarhringum, herra forseti, of snemma á ferðinni með að knýja fram afgreiðslu þessara mála miðað við það sem undirbúningur málsins býður upp á. Ég held að það sé einboðið, herra forseti, að slá því á frest um a.m.k. sólarhring að annars vegar fjáraukalagafrv. og síðan fjárlagafrv. verði afgreitt. Sem stendur er það alls ekki tímabært. Þær aðstæður í málinu sem ég hef lýst hér taka af öll tvímæli um það. Það er ekki hægt að ætlast til að nefndarmenn í efh.- og viðskn. afgreiði álit á tekjuhlið fjárlagafrv. og þjóðhagsforsendum til fjárln. fyrr en þeir hafa séð þær. Eða hvað, herra forseti? Það liggur í augum uppi að menn verða að fá tíma frá því að þessi gögn liggja fyrir þar til þeir geta skilað nefndarálitum sínum o.s.frv. Ég fer fram á að forseti skoði þetta í allri vinsemd, að þessu verði bakkað um sólarhring hið minnsta.