Lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 13:46:37 (2864)

1999-12-14 13:46:37# 125. lþ. 45.91 fundur 215#B lokaafgreiðsla fjárlaga og fjáraukalaga# (aths. um störf þingsins), EOK
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Fjárln. hefur lokið störfum. Það var eingöngu vegna þess að umsögn efh.- og viðskn. um tekjuhlið frv. vantaði sem við frestuðum fundi núna kl. 1 en samkvæmt þingsköpum ber að láta hana fylgja með. Allar forsendur hafa verið lagðar fyrir nefndina. Nefndin vissi nákvæmlega hvað lá til grundvallar nýrri þjóðhagsspá í gærkvöldi. Það er ekkert efnisatriði, það er bara formsatriði að það sé trúnaðarmál til kl. 16 og breytir engu. Það er ekkert í þessari spá sem breytir neinu sem skiptir máli, ekki neitt. Hér er ekki verið að koma á neinn hátt neinum í opna skjöldu. Vinnunni er lokið, þetta liggur allt fyrir og okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja 3. umr. fjárlaga á morgun eins og gert var ráð fyrir í áætlun þingsins. Það er ekkert sem á að hamla því, engin ný tíðindi á nokkurn hátt, engin leyndarmál í því. Formið liggur hins vegar fyrir um að gera þetta að trúnaðarmáli til kl. 16. Kannski getum við sagt það embættismönnum til vorkunnar að þeir hafi ekki gert ráð fyrir því að þingið héldi áætlun. Þó held ég að það skipti ekki máli, þeir þurftu að fá inn frv. eins og það var afgreitt eftir 2. umr. til að leggja það til grundvallar þannig að þetta er allt í mjög eðlilegum farvegi og ekkert sem veldur okkur neinum vandræðum.