Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 16:49:54 (2877)

1999-12-14 16:49:54# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemdir við að þetta frv. sé tekið hér á dagskrá við þessar aðstæður. Ég held að þær séu tæpast boðlegar þingmönnum. Ég hef t.d. hug á því að hlusta á þessa umræðu og taka þátt í henni en nú er ég í þeirri stöðu að þurfa að ganga frá áliti fyrir hönd efh.- og viðskn. sem mér er tjáð að fjárln. bíði eftir til að geta haldið áfram lokaafgreiðslu fjárlagafrv.

Mér finnast þetta ekki vera metnaðarfull vinnubrögð hjá hinu háa Alþingi og vönduð afgreiðsla á fjárhagslegum málefnum ríkisins. Við þingmenn erum að fá í hendur um hádegisbilið, kannski fjárlaganefndarmenn aðeins fyrr í morgun og síðan við í efh.- og viðskn. um hádegisbilið, nýja þjóðhagsspá og forsendur þeirra fjárhagslegu mála sem hér eru til afgreiðslu. Fjáraukalagafrv. er auðvitað hluti af því efnahagslega umhverfi sem nú er koma í ljós með nýrri þjóðhagsspá og nýjum forsendum í þessum efnum.

Ég hefði talið eðlilegast að fresta umræðum um þessi mál, helst til morgundagsins eða a.m.k. fjáraukalagafrv. þar til við nefndarmenn í efh.- og viðskn. hefðum haft tíma til að skila áliti til fjárln. Þar er ég staðgengill Ögmundar Jónassonar sem er erlendis á vegum þingsins þessa dagana. Jafnframt þyrfti fjárln. að hafa tíma til að ganga frá sínum hlutum. Í fyrsta lagi gæti verið tímabært, ef mönnum vinnst vel, að hefja umræður um fjáraukalagafrv. eftir kvöldmat og um fjárlagafrv. einhvern tíma síðar, að mínu mati ekki fyrr en á fimmtudag ef einhver svipur ætti að vera á afgreiðslunni.

Ég ætla að spyrja hæstv. forseta: Ef ekki er hægt að verða við þeirri ósk minni að fresta þessari umræðu fram yfir kvöldmat, hvenær á ég þá að ganga frá nál. sem einn af nefndarmönnum í efh.- og viðskn.? Er þá fjárln. tilbúin að bíða eftir því þar til þessari umræðu lýkur og einhverja klukkutíma í viðbót?