Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 17:17:02 (2882)

1999-12-14 17:17:02# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þegar fjáraukalög koma til 3. umr. er rétt að rifja upp í upphafi það sem kom fram bæði við 1. og 2. umr. fjáraukalaga. Rétt er að rifja upp að fjáraukalög eru aðeins samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins til þess að taka á ófyrirsjáanlegum útgjöldum sem var brýnn vandi að leysa og gátu ekki beðið afgreiðslu Alþingis.

Þau fjáraukalög sem við stöndum nú frammi fyrir eru alls ekkert af þessum toga. Hérna er um gífurlegar breytingar bæði á tekna- og gjaldahlið að ræða svo að ef maður ber þær saman við fjárlögin sem voru samþykkt í fyrra og giltu nú fyrir þetta ár þá er ekki hægt að líta svo á að þar um sama hlut að ræða.

Þetta hlýtur því að leiða hugann mjög alvarlega að vinnubrögðum og stöðu Alþingis gagnvart fjárlagagerðinni. Þetta hlýtur að leiða hugann mjög alvarlega að því hvernig fjármálastjórn er eiginlega fyrir komið. Eins og fjáraukalögin koma ítrekað fyrir er alveg eins gott að vera bara með stimpil og stimpla aðgerðir framkvæmdarvaldsins og ekki bara að stimpla fjáraukalögin heldur líka að sleppa þessari vinnu við fjárlög því að svo lítið eiga þau skylt við þann raunveruleika sem síðan verður.

Við upplifum það, herra forseti, í fjárln. að um nauðsynleg gögn sem er eðlilegt að komi inn til fjárln. til vinnslu, er sagt að verið sé að vinna úr þeim í ráðuneytunum, það sé verið að vinna úr þeim í fjmrn. og þar sé verið að gera nauðsynlegar áætlanir til að senda til fjárln.

Það kom fram á fundum í dag eða var látið í það skína bæði frá forstjóra Þjóðhagsstofnunar og eins frá fulltrúum fjmrn. að í rauninni væri ekki ætlunin að fjárln. fengi þessar tölur til úrvinnslu fyrr eftir á. Til hvers er þá að vera að vinna?

Það verður, herra forseti, að gera miklu ákveðnari skil á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Ég hef þá tilfinningu að framkvæmdarvaldið líti svo á að löggjafarsamkoman sé bara afgreiðslusamkoma og það sé alveg ástæðulaust að sýna henni þá virðingu að gefa henni það svigrúm til að vinna verk sín, vinna fjárlög sín sem þarf.

Það sem við stöndum uppi með eru fjárlög sem eru svo götótt, eru svo lélegur pappír að þau standast ekki einu sinni til næsta mánaðar. Við höfum meira að segja upplifað, herra forseti, að á milli mánaða í haust eru stórbreytingar á áætlun um tekjur og gjöld. Gjaldahliðin er að vísu rædd talsvert ítarlega í fjárln., sérstaklega hvað fjárlagagerðina varðar í smáatriðum en tekjuhliðin kemur nánast þar ekki til umræðu. Það er látið að því liggja að þetta komi okkur bara ekkert við. Það er látið að því liggja að það sé svo mikill trúnaður í kringum þessar tölur sem séu á bak við tekjuáætlun að ekki sé hægt að láta þær koma til fjárln. nema einum eða tveimur klukkutímum áður en --- eða eftir að verðbréfasölum einhverjum er lokað eða þeim sýnist að opna. Þetta er það sem á að bjóða fjárln. og Alþingi upp á.

Ég leyfi mér, herra forseti, að mótmæla þessum vinnubrögðum og ég mótmæli þeirri sýn sem framkvæmdarvaldið hefur gagnvart löggjafarvaldinu.

Ég hef lagt til að þessari fjáraukalagavinnu verði gjörbreytt. Fjárlög séu unnin eðlilega í fullum trúnaði, að fjárln. sé styrkt til þess að hún geti á eigin forsendum unnið fjárlög sín. Hún eigi ekki að þurfa að betla út úr framkvæmdarvaldinu tölur, upplýsingar og bíða eftir skoðun þeirra áður en fjárln. getur sjálf haft myndugleika og upplýsingar til að taka afstöðu. Alþingi og fjárln. sem vinnur í umboði Alþingis skila tillögum sínum til Alþingis og þaðan er þessu stjórnað.

Ég tel, herra forseti, að fjáraukalög eigi að vera til þess að taka á skyndilegum vanda, skyndilegum uppákomum. Hins vegar geta forsendur breyst og þá á að taka á því með fjáraukalögum á öðrum tíma ársins. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að forsendur breytist, kjarasamningar, óvænt útgjöld, óvæntar tekjur eins og hefur nú komið upp. Það er miklu eðlilegra að fjáraukalög séu lögð fram á vorin. Þá liggur fyrir staða vetrarins, hvað hefur gerst frá áramótum til vors á meðan þing starfar. Þingið tekur kannski ákvarðanir á vetrinum um útgjöld, um ný verkefni sem geta verið þess eðlis að það sé fyllsta ástæða til þess að bregðast við. Fjárln. á því að starfa sem nefnd allt árið en ekki að starfa bara á nokkrum vikum að haustinu og taka þá að meginhluta við skipunum frá framkvæmdarvaldinu.

Ég vil vekja athygli á öðru, herra forseti, sem er að gerast bæði í fjáraukalagavinnunni og líka í fjárlagavinnunni. Það er sú tilhneiging að afgreiða æ stærri hluta sem einhvers konar púkk, einhvers konar safn af fjármagni inn á liði hjá framkvæmdarvaldinu, að Alþingi, fjárlagavaldið kinoki sér við að taka afstöðu, að deila fénu út til verkefna eins og því er falið. Þeir pottar sem eru sendir óskipt inn í ráðuneytin til skiptingar stækka æ meir. Fari fram sem horfir nú þá mun ekki líða á löngu þangað til Alþingi stendur frammi fyrir því að samþykkja eða synja eða ræða eina upphæð til menntmrn., eina upphæð til heilbrrn., eina upphæð til félmrn., eina upphæð til landbrn. o.s.frv. og síðan verði ráðuneytunum falið að skipta.

Það skiptir milljörðum kr. sem menntmrn. fær í óskipta liði. Að hluta er enn haft samráð við fjárln. um skiptingu þeirra en þeir fara inn sem óskiptir liðir.

Herra forseti. Þarna er jafnt og þétt verið að draga úr valdi og ábyrgð Alþingis og færa það yfir til framkvæmdarvaldsins. Þessi skil eru því að verða gleggri á þann veg að verið er að draga úr valdi Alþingis. Ekki verður breyting á þessu nema Alþingi geri þarna alvarlegar kröfur, alvarlegar breytingar, styrki sig, styrki eigin innviði, styrki fjárln., styrki þær nefndir sem vinna með að fjárlögum og reyni einu sinni að koma ábyrgum fjárlögum á koppinn.

Því miður, herra forseti, þá hefur vinnan í haust ekki með öllu gefið vonir um að svo verði. Ég vil þó ítreka að bæði formaður og nefndarmenn hafa lagt sig í sjálfu sér alla fram og ekki staðið á þeim að vinna sem best úr þeim upplýsingum sem inn til fjárln. koma og þeir síðan ná eða kalla fram. En vald þeirra og áhrif og möguleiki þeirra og kraftur til þess að vinna á eigin vegum hann virðist svo alvarlega skertur að það virðist vera hægt að bjóða nefndinni nánast hvað sem er í þeim efnum.

Víkjum að efnisatriðum þess fjáraukalagafrv. sem er til 3. umr. Fram hefur komið að tekjuáætlun frá því að fjárlög voru samþykkt hefur vaxið um tugi milljarða kr. Það er svo sem ánægjulegt að tekjur vaxi. En hvers konar fjármálastjórn og áætlanagerð er þetta? Það gæti ekkert fyrirtæki, engin stofnun á vegum ríkisins verið rekin eins og ríkissjóður er að gera með vinnubrögðum sínum.

Gjöldin sem við stöndum líka frammi fyrir, hin bestu mál flest hver, hækka líka um milljarða kr. Megnið af því var fyrirséð og ef unnið hefði verið með ábyrgum hætti hefðu þessi gjöld átt að vera tekin inn í yfirstandandi fjárlög. Ég skil ekki hvers vegna verið er að fela þessi gjöld. Var einhver ávinningur að fela þessi gjöld við gerð fjárlaganna fyrir yfirstandandi ár? Hvaða ávinningur var í því? Þá voru kosningar og átti kannski að sýna einhverja betri útkomu en var raunveruleg? En ég trúi því samt ekki að það hafi verið meginskýringin.

Nei, herra forseti, meginskýringin er í því að ekki er borin nægileg virðing fyrir þessari vinnu, bara einfaldlega ekki, og þá verður árangurinn eins og við upplifum nú við fjáraukalög.

Viðskiptahallinn, herra forseti, hefur vaxið alveg geigvænlega og meira að segja síðan í haust þegar áætlun var lögð fram við framlagningu fjárlaga og fjáraukalaga hefur hann vaxið um milljarða, milljarða kr. Hvað erum við að halda úti mörgum sterkum efnahagsstofnunum og þjóðhagsstofnunum? Hvað eru þessar stofnanir allar að vinna þegar sú vinna sem þær geta lagt fram til Alþingis hér er með þeim hætti sem raun ber vitni? Hvað er verið að gera þarna þegar tölurnar breytast frá mánuði til mánaðar?

[17:30]

Herra forseti. Meira að segja einstakur ríkisspítali eða nokkurt einasta fyrirtæki gæti ekki rekið sig með þeim hætti sem ríkissjóður er að gera, það er af og frá.

Í fjáraukalögum er tekið á uppsöfnuðum vanda sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar, vanda sem var fyrirséður að stórum hluta, vanda sem á sér rætur í kjarasamningum, m.a. kjarasamningum sem voru settir í gang af hálfu stjórnvalda, átti að vera eitthvert patent til að leysa rekstur stofnana, gera þær samkeppnishæfar og sjálfsagt að laða fram aukna hagkvæmni og sparnað. En hver hefur raunin orðið? Hún er satt að segja alveg hörmuleg og meira að segja það að hv. ábyrgðarmenn sem bera ábyrgð í meiri hluta fjárln. og reyndar mun hæstv. forsrh. hafa sagt að þetta hafi verið alvarleg mistök sem þarna var lagt upp með. Það var varað við þessu en það er slík oftrú á embættismenn sem eru að leggja til hitt og þetta og Aþingi virðist hafa svo takmarkaðan myndugleika til að mynda sér sjálft skoðun á því sem lagt er fyrir það. Það er vel að tekið er á vanda heilbrigðisstofnananna. En, herra forseti, sú mikla byggðaröskun sem hefur átt sér stað á þessu ári og undanförnum árum er einn aðalvandi efnahags þjóðarinnar. Flutningur á fólki þúsundum saman hingað til höfuðborgarsvæðisins, fólki sem yfirgefur eignir sínar, fær lítið fyrir eignir sínar, fólk sem setur sveitarfélögin sem það bjó í í uppnám í atvinnu- og samfélagslegri þjónustu. Það flytur hingað, það þarf að kaupa sér hús, þarf að fjárfesta og það skapar þenslu. Það skapar aukna eftirspurn langt umfram það sem væri æskilegt. Ef jafnvægi væri í búsetu landsins hefði verið hægt að forðast stóran hluta af þessari þenslu.

Herra forseti. Það er afar lítið lagt til. Ekki er komið til móts við þennan vanda nema að litlu í fjáraukalagafrv. Segja má að því sé ekki ætlað að gera það en þetta er skuld við landsbyggðina. Þetta er skuld við dreifbýlið á síðustu árum, þetta er skuld við dreifbýlið, líka frá þessu ári. Einmitt þessi skuld er hluti af þeim halla sem við stöndum nú frammi fyrir í viðskiptum og þeirri þenslu sem við tökumst nú á við. Það er vel, herra forseti, að skuli hafa verið látið undan með að auka fjármagn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það hafði verið boðað fyrr í haust að ekki væri ætlunin að koma til móts við þá erfiðu greiðslustöðu sem sveitarfélögin eru í. Boðað hafði verið að sérstök nefnd væri að störfum sem væri að endurskoða tekjuáætlun sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga og tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og hún mundi skila áliti á næsta ári og beðið yrði með aðgerðir þangað til, a.m.k. var látið að því liggja.

Það er því vel, herra forseti, að þarna er lagt nokkurt fé til. Það er mikil blóðtaka fyrir sveitarfélög þegar fólk flytur lögheimili sitt og búsetu. Það flytur og skráir sig fyrir 1. desember, það hefur kannski átt heima í fyrri heimkynnum sínum megnið af árinu, notið þar þjónustu, skólagöngu, heilbrigðisþjónustu en þegar það flytur 1. desember tekur það með sér alla tekjustofna ársins, öll útsvör sín. Þau fara því til hins nýja sveitarfélags sem það flytur í. Það sveitarfélag sem þetta fólk hafði búið í og notið þjónustunnar megin hluta ársins missir því af tekjunum en er kannski búið að láta þjónustuna í té. Þetta getur verið í lagi þegar um tiltölulegt jafnvægi er að ræða en þegar svona miklir þjóðflutningar eiga sér stað að nærri þrjú þúsund manns flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og flytja með sér þessa tekjustofna er um alvarlegt mál að ræða.

Þess vegna, herra forseti, er vissulega fagnaðarefni að það skuli þó í litlu vera tekið á þessu máli og því sé lofað að þarna verði varið 350 millj. kr. sem gæti einmitt snúið að þessum fólksfækkunarframlögum. Reyndar hafði verið gert ráð fyrir því að skipting á þessu fé og þjónustufé til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lægi fyrir en svo er nú ekki en verður að fagna því að þetta skuli vera gert þó svo að við hefðum viljað sjá miklu stærra átak því að svo mörg sveitarfélög út um dreifbýlið eiga í alvarlegri greiðslustöðu.

Ég minni á stöðu sveitarfélaga gagnvart félagslegum eignaríbúðum sem þau verða að leysa inn til sín á fullu verði en síðan er ekki hægt að selja þær nema fyrir hluta af því verði og þá safnast upp verulegar skuldir hjá sveitarfélögunum ef þau geta þá selt þær. Það eru til þau sveitarfélög, og þau ekki fá, sem hafa ekki getað lagt út í þær framkvæmdir, út í þau verkefni, sem þau höfðu gert ráð fyrir að leggja út í vegna þess að þau eru í komin í svo erfiða greiðslustöðu. Jafnvel verkefni sem eru að hluta til styrkt og fá framlög úr ríkissjóði en þau geta ekki nýtt sér það vegna þess þau hafa ekki bolmagn til að leggja fram framlag sitt. Ég nefni ýmis hafnamál, hafnarmannvirki vítt og breitt um landið.

Herra forseti. Tekið er í fjáraukalögunum í heild á vanda og erfiðri stöðu ákveðinna málaflokka. En aðrir skildir eftir, aðrir sem líka eiga skilið að fá fulla virðingu og fullan skilning Alþingis. Þar nefni ég ekki hvað síst byggðamálin, ég nefni búsetumálin, ég nefni mál aldraðra, öryrkja og þeirra sem eru að taka laun samkvæmt lægstu launatöxtum. Kannski hefði verið ráð, herra forseti, að fara ítarlega í gegnum bæði tekju- og gjaldalið við gerð yfirstandandi fjárlaga. Það er athugandi hvort ekki mætti færa til skattbyrðina á fólki, hvort ekki mætti hækka persónuafslátt hjá þeim sem væru með lægst laun eða kæmi þeim best til góða, þannig að ráðstöfunartekjur þeirra sé hægt að hækka hlutfallslega og lagt hærri skatta á þá hina sem eru að hrifsa til sín góðærið, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Nei, það þótti sérstök ástæða til, herra forseti, að hafa fjármálastjórnunina og skipunina og skattheimtuna með þeim hætti að æ skyldi tekið hlutfallslega meira af þeim sem minna máttu sín og minna af þeim sem meira mega sín. Þetta er fjármálastjórnin. Hvað leiðir svo þetta af sér, herra forseti? Þetta leiðir ekki aðeins það af sér að þeir sem hafa hærri tekjur eyða meir, þeir kaupa meir, og skapa aukna þenslu, heldur skapar þetta líka mismun á milli þjóðfélagshópa eftir tekjum. Það fólk sem lægri tekjurnar hefur vill líka fá að njóta góðærisins með einhverjum hætti, það vill líka fá að njóta þess sem í boði er. Hvað gerir þetta fólk? Það tekur lán, það tekur lán til þess að geta líka haldið hliðstæðum lífsstíl og það fólk sem með hærri tekjurnar er. Þá vill svo til að stjórnvöld hafa búið svo vel í haginn að þetta er líka áhugamál bankastofnananna. Bankastofnanirnar hafa verið einkavæddar. Bankastofnanirnar hafa sett fram miklu sterkari arðsemiskröfu en áður var. Bankastofnanirnar hafa lent í innbyrðis samkeppni um að fá að lána fólki. Bankastofnanir eru ekki endilega að spekúlera í því hvers konar greiðslugeta er á bak við, nei, bankastofnanirnar, það er svo hörð arðsemiskrafa á þeim og til þess að bankastofnanirnar geti uppfyllt þá arðsemiskröfu sem til þeirra eru gerðar verða þær að lána fé. Það er svo hörð samkeppnin að þær verða meira að segja að sækja fé erlendis frá inn í landið til þess að geta lánað. Hvað gerir þetta, herra forseti? Þetta eykur viðskiptahallann, eykur viðskiptaójöfnuðinn og þetta eykur skuldir heimilanna og þetta eykur þensluna og þetta á ekkert skylt við það að styrkja atvinnulífið. Þetta er fjármálastjórnin, óreiðufjármálastjórn sem lætur undan þrýstingi um arðsemiskröfu hvar sem er í þjóðfélaginu, hvernig sem hún kemur niður.

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir því að vísitala neysluverðs hefur enn hækkað á milli mánaða og mælist 5,6% miðað við síðustu 12 mánuði, þrefalt meiri en í helstu samkeppnislöndum okkar. Þetta þýðir, herra forseti, að ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist að draga úr þenslunni eins og ég hef bent á. Henni hefur gjörsamlega mistekist að hægja á verðbólguhjólinu sem hún er þó stöðugt að tönnlast á. Þvert á móti, herra forseti, heldur þetta áfram dag frá degi og í því sem við stöndum frammi fyrir á næsta ári er ekki gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn minnki. Þegar leitað er skýringa á viðvarandi þenslu í efnahagslífinu verður mönnum fyrst fyrir að líta á ytri aðstæður eins og bensínverð, eins og húsnæðisverð. Þessir tveir liðir, þó þeir séu mikilvægir, skýra þó aðeins tæpan helming hækkunar neysluverðs frá áramótum. Húsnæðisverðið, herra forseti, hefur sett landið á annan endann. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur rokið upp úr öllu valdi. Hvaða áhrif hefur þetta? Þetta stórhækkar skuldir heimilanna, þetta hækkar skatta á íbúðum vítt og breitt um landið, skatta, eignarskatta, fasteignaskatta á eignum sem eru fjarri því að standa undir því verði sem verið er að nota sem skattstofn. Þannig að misréttið, herra forseti, eykst með hverjum degi sem þessi fjármálaóstjórn varir.

Hvað er það þá sem veldur þenslunni? Já, herra forseti, það er fyrst og fremst mikill vöxtur einkaneyslunnar. Það er þessi sami vöxtur einkaneyslu sem hefur drifið áfram hagvöxtinn á þessu ári. Sú mikla bjartsýni sem hér var ríkjandi, allt fram á fyrri hluta þessa árs, ekki síst fyrir linnulaust góðæristal stjórnvalda, hefur stóraukið eyðslu, stóraukið fjárfestingu og neyslu einstaklinga og fyrirtækja. Á sama tíma jókst framboð og lánsfé í miklum mæli og það má m.a. rekja til þess að ríkisstjórnin ákvað að bjóða út nýtt hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var stofnaður með sterka eiginfjárstöðu. Afleiðingin var, herra forseti, eins og ég hef sagt, var afar hörð samkeppni fjármálastofnana um lánaviðskipti gagnvart heimilum, gagnvart einstaklingum, og þar tókst að skapa gríðarlega eftirspurn eftir lánsfjármagni. Í seinni tíð hefur mjög dregið úr þeim drifkrafti sem aðstæður sköpuðu í hina efnahagslegu uppsveiflu á sínum tíma. Verð á sjávarafurðum virðist vera að lækka á nýjan leik eftir þær verðhækkanir sem urðu á árunum 1997--1998. Við heyrum líka viðvörunarorð, herra forseti, að það er stóraukin skuldasöfnun hjá fyrirtækjum sjávarútvegsins. Herra forseti. Þar er líka veruleg vá, það fjármagn, það góðæri sem við nú teljum okkur vera að njóta hefur ekki farið til þess að styrkja þessa höfuðatvinnuvegi okkar.

[17:45]

Nei, eyðslan er fjármögnuð með lánum á lán ofan enda vandalaust að slá lán vegna þess að bankarnir slást um viðskiptin. Við sjáum afleiðingarnar í skuldasöfnun heimilanna sem hefur enn aukist á milli ára og nú nema skuldirnar hvorki meira né minna en 144% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Varðandi atvinnuvegina, ekki aðeins sjávarútveg heldur einnig landbúnað, iðnað, í hvaða atvinnuvegi sem er, er í flestum tilfellum um skuldaaukningu að ræða. Aukningin hefur vegið upp niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs og rúmlega það því erlend skuldastaða þjóðarbúsins í heild hefur enn versnað sem hlutfall af landsframleiðslu og allt útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári.

En hvaðan kemur þetta fé? Jú, herra forseti, þetta er erlent lánsfjármagn sem tekið er til eyðslu. Viðskiptahallinn eykst hröðum skrefum. Viðskiptahallinn nam 28 milljörðum kr. í fyrra og þótti þá flestum nóg um. Nú stefnir þessi halli í að verða 38 milljarðar kr. Hver var stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Hver var hún? Var hún að auka viðskiptahallann um 10 milljarða? Var hún það? Gerði fjárlagavinnan ráð fyrir því? Það hefur þá verið vönduð fjárlagavinna sem þarna var á ferð.

Þetta er mikið áhyggjuefni þrátt fyrir að ríkissjóður standi ekki að baki öllum þessum viðskiptahalla vegna þess að hann á rætur sínar í einkaneyslunni. Það er heldur ekki hægt að segja að fjárfesting einkafyrirtækja sé ævinlega arðbær og allra síst þegar áætlanir eru byggðar á bjartsýni sem reynist ekki innstæða fyrir þegar á hólminn er komið. Hvað eru margar fjárfestingar í verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu? Hver hefur reiknað út arðsemi þessa verslunarhúsnæðis? Hvert er það? Það er ábyrgðarhluti, herra forseti, að ráðast í svo stórar og stórkostlegar fjárfestingar án þess að leiða hugann að því hver arðsemi þeirra er. Það þótti nærri því sjálfsagt mál þegar Kringlan, fyrsta kringlan okkar, var byggð eða þegar Borgarkringlan fór á hausinn. Það þóttu nánast eðlilegir viðskiptahættir með því milljarða tapi sem þar var á ferðinni. Afleiðingar af offjárfestingu fyrirtækja geta orðið enn þá alvarlegri en ef um er að ræða þenslu af völdum opinberra útgjalda. Ríkið getur aukið tekjur sínar með skattheimtu og stýrt því en fyrirtæki verða oft og tíðum að grípa til sársaukafyllri ráðstafana til að hagræða í rekstri sínum þegar í óefni er komið eins og við vorum að heyra frá Ólafsfirði.

Herra forseti. Það hefði verið nær og ein leið að taka á fiskveiðistjórnarkerfinu til þess að skapa jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hefði verið nær ef það hefði verið gert þannig að réttlæti hefði orðið út um byggðir landsins. Ég fullyrði að þá stæðum við ekki frammi fyrir þessum mikla og vaxandi viðskiptahalla sem við nú stöndum frammi fyrir og greiðsluerfiðleikastöðu þjóðarinnar. Takist ekki að leiða þetta til betri vegar er augljóst að útlán munu tapast úr fjármálakerfinu og fjölskyldur munu verða gjaldþrota ef ekki tekst að stórauka áfram tekjurnar því einhvern tímann þarf að borga eyðsluna.

Efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar hefur leitt okkur inn í sannkallaðan vítahring. Útþenslan hefur ýtt undir hækkun fasteignaverðs sem aftur magnar eftirspurn og þenslu. Þetta kemur til af því að hærra fasteignaverð hvetur til nýbygginga vegna þess að húsnæði verður betri fjárfesting eftir því sem verðmæti þess eykst og eftirspurnin er meiri. Jafnframt eykur þessi hækkun á fasteignaverði lántökur vegna þess að eftir því sem hús er verðmætara er hægt að taka hærra veð í því.

Herra forseti. Hvað gerðist hjá Íbúðalánasjóði? Íbúðalánasjóður þurfti að fá heimild til að taka 8 milljarða kr. lán til að geta staðið undir auknum útlánum til húsnæðiskerfisins miðað við það sem áætlanir voru um. Var það til að slá á þenslu? Nei, herra forseti, þetta var afleiðing fjármálalegrar óstjórnar sem leiðir af sér byggðaröskun, þenslu og viðskiptahalla.

Herra forseti. Niðurstaðan er því sú að fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist nú í fjáraukalögum sem lögð eru hér fram, hefur farið gjörsamlega úrskeiðis og því fer fjarri að tekist hafi að slá á þensluna og engar horfur eru á að svo verði. Almenningur í landinu mun borga brúsann af þessu margfræga góðæri hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar, almenningur sem minnst ber úr býtum. Bankarnir munu gæta þess að ná sínu til baka í samræmi við hinar háu arðsemiskröfur sem eru nú gerðar og þá verður gengið að mörgum skuldaranum með tilheyrandi gjaldþrotum og upplausn heimila í landinu, hangi þessi fjármálaóstjórn áfram sem við höfum staðið frammi fyrir á þessu ári.

Ofan á allt þetta bætist svo að fjöldi fólks hefur ekki orðið var við þetta svokallaða góðæri og telur sig enn eiga inni til þess að fá til jafns við þá sem hér hafa sopið flotið. Hvað munu launþegar hjá ASÍ segja þegar að þeir standa nú frammi fyrir talinu um það að nú sé góðærinu að ljúka og þeir hafa ekki enn fengið launahækkanir sínar, taxtahækkanir sínar, sinn hluta af því góðæri sem aðrir hafa haft um tíma?

Nei, herra forseti, þetta fjáraukalagafrv. er dæmi um dæmalausa óstjórn, dæmalausa fjármálastjórn, vinnubrögð sem eru ómarkviss, vinnubrögð sem ekki eru sæmandi eða trúverðug af hálfu Alþingis. Alþingi ber að taka í taumana. Því ber að styrkja sig gagnvart framkvæmdarvaldinu, því ber að vera þess megnugt að geta unnið ábyrg fjárlög.