Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 17:56:40 (2885)

1999-12-14 17:56:40# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég deili mjög áhyggjum af stöðu efnahagsmála með hv. þm. Ég gæti alveg tekið undir það að við skulum gera fjáraukalög tvisvar á ári eða jafnvel þrisvar eða fjórum sinnum. Ég fæ ekki séð hvað batnar við það. Ég er líka sammála hv. þm. um að þetta er einn vefur. Þetta er allt saman einn vefur. En erum við þá nokkru nær? Erum við nokkru nær með þessum tillögum? Þessi þjóð er að eyða of miklu. Er það ekki niðurstaðan sem við höfum fengið? Þjóðin eyðir meira en hún aflar. Er þá nokkuð annað að gera en annaðhvort að reyna að minnka eyðsluna eða auka aflafenginn? Er nokkur önnur leið til út úr vanda Íslendinga eða hafa menn e.t.v. þriðju patentlausnina á því hvernig eigi að gera þetta? Við höfum haft áhyggjur af ríkisfjármálunum. Ég hef tekið undir það hérna. En ég tók líka eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason flutti heilmargar viðbótartillögur til aukins kostnaðar á sama tíma og hann skrifaði undir nál. þar sem hann varaði við auknum útgjöldum og aukinni útþenslu ríkisins. Ég fékk þetta ekki alveg til þess að passa heim og saman. En ég veit ekki og er ekki búinn að átta mig þá á því hverjar tillögurnar eru því ég tek undir það að við erum á hálu svelli. Ég heyrði ekkert um það hverjar tillögurnar eru í þeirri vafasömu stöðu sem við erum. Gætum við fengið að heyra, þó ekki væri nema örlítið brot af þeim?