Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:37:00 (2892)

1999-12-14 18:37:00# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Af svari hæstv. ráðherra mætti ætla að allt væri þetta eðlilegt. Þá má hins vegar gagnspyrja og velta því fyrir sér: Af hverju var þetta ekki að finna í frv. ráðherrans sjálfs, þ.e. frv. til fjáraukalaga? Hvers vegna birtist þetta við 3. umr. af hálfu meiri hluta nefndarinnar þegar þetta lá skýrt fyrir allt árið?

Nei, auðvitað er það ekki þannig. Í orðum hæstv. ráðherra lá að ganga ætti frá þessu samkomulagi um jöfnunarsjóðinn á næstu dögum. Hæstv. ráðherra hefur mörgum sinnum hér í ræðustól talað um að ekki væru nokkur áform um að koma til móts við sveitarfélögin eða laka stöðu þeirra, það væri bull og kjaftæði að þau ættu eitthvað inni hjá ríkissjóði. Auðvitað kemur annað á daginn. Af hálfu ríkisstjórnarinnar á nú að lappa upp á þessi samskipti eins og hér er gert. Það breytir því ekki að það er hægt að gera í fjárlögum líka. Gagnrýni mín er eftir sem áður á þessa notkun fjáraukalaga.

Ég saknaði þess hins vegar í andsvari hæstv. ráðherra sem kannski er veigamest þó ég dragi ekki úr mikilvægi annarra atriða, þ.e. hvort hann deilir ekki með mér áhyggjum yfir pattstöðunni varðandi erlend lán og viðvarandi viðskiptahalla.