Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:40:43 (2895)

1999-12-14 18:40:43# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi sérstaklega til mín tveimur spurningum varðandi skuldbindingar í fjárreiðulögunum vegna sjúkrahúsanna. Hæstv. fjmrh. hefur svarað því og ég hef engu við það að bæta.

Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefur komið fram að gengið muni frá samkomulagi um útdeilingu á þessu fé innan tíðar. Rétt er að það er þáttur í því að styrkja afkomu þeirra sveitarfélaga þar sem fólksfækkun hefur orðið. Það hefur auðvitað komið í ljós í umræðum um fjárhagsáætlanir þeirra að vandi þeirra er mikill. Því var ekki hjá því komist að taka þetta skref núna. Sú nefnd sem vinnur að endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna á síðan að taka við málinu. Þar eigum við sæti, við hv. þm. og ég vona að við eigum gott samstarf um það eins og hingað til. Samstarf okkar hefur verið með miklum ágætum hingað til.

Varðandi hina almennu efnahagsmálaumræðu sem hér hefur farið fram hefur hv. þm. komið fram sem hið ábyrg andlit Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar vantar allar tillögur um það hvað hv. þm. vilja gera til að mæta áhyggjum sínum af framvindu ríkisfjármála.