Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 18:45:25 (2899)

1999-12-14 18:45:25# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. (Forsrh.: Komstu með ræðuna með þér?) Ég er með ýmis gögn, hæstv. forsrh. Ég bið hæstv. ráðherra að bíða rólegan. Þetta verður allt mjög fróðlegt.

Ég hlýt að minna á, herra forseti, að þessi fundur er haldinn undir nokkrum mótmælum frá ræðumanni. Ég tel alveg á mörkunum að hægt sé að segja að nokkur svipur sé á þessu fundarhaldi varðandi fjáraukalaga- og fyrirhugaða fjárlagaafgreiðslu á þinginu. Það er dapurlegt, herra forseti, en það hefur reynst óhjákvæmilegt að upplýsa hvernig unnið er að þessum vandasömu verkefnum á lokasprettinum. Ég býst við að þjóðinni þyki það umhugsunarefni hvernig t.d. tekjuforsendur fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru meðhöndlaðar á hinu háa Alþingi. Hvað sem líður vilja manna til að halda tímaáætlanir og ræða fjárlagafrv. til 3. umr. á einhverjum tilteknum degi þá held ég að hitt hljóti að skipta meira máli að undirbúningurinn og undirbyggingin sé sæmilega vönduð. Það er tæpast hægt að segja að svo hafi verið í dag. Ný þjóðhagsspá komst í hendur manna á þessum degi. Hún var gefin út til fjölmiðla kl. 4 í dag þegar búið var að loka Verðbréfaþinginu, fyrr mátti ekki létta trúnaði af þeim tíðindum. Í sömu andrá stendur yfir fundarhald á Alþingi, í uppnámi af því að það átti að ræða málin á grunni sömu þjóðhagsspár.

Þegar verið er að ganga frá fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár og leggja lokahönd á afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir næsta ár þá hljóta menn að vilja byggja það á bestu og nýjustu upplýsingum um þróunina í þjóðarbúskapnum. Annað væri sérkennilegt. Því meiri ástæða er til að vanda sig í þessum efnum, herra forseti, þegar í ljós kemur að umtalsverðar breytingar verða frá því sem menn höfðu búist við og vonað. Þetta fjáraukalagafrv. gaf strax á haustdögum tóninn um að menn hefðu vanmetið ýmsa þætti í efnahagsmálum þegar fjárlögum var lokað fyrir tæpu ári.

Í þessu frv. stendur varla steinn yfir steini. Enn á ný hafa orðið verulegar breytingar á áætluðum tekjum ríkissjóðs. Umtalsverðar breytingar eru á þjóðhagshorfum og þarf að meta það inn í útlitið fyrir bæði tekjur og gjöld á næsta ári. Ég leyfi mér að fullyrða að þó að menn séu býsna vel að sér í efh.- og viðskn. og fjárln. þá hefði þeim ekki veitt af meira en nokkrum klukkutímum til að rýna aðeins í það mál. Þetta, herra forseti, innleiðir á vissan hátt losarabrag á þessum hlutum sem tilheyrði, hélt ég, öðrum tímum. Það var þegar bullandi verðbólga var og óstöðugleiki í efnahagslífinu, á tímum sem enginn vill hverfa aftur til. Menn afsökuðu sig gjarnan með því á lokasprettinum í fjárlagagerðinni að það væri hvort sem er ómögulegt að átta sig á hvernig þetta þróaðist þegar allt væri á fullri ferð í 20--30 eða 40% verðbólgu eða hvað það nú var, þá væru þetta meira og minna skot út í loftið.

En í sæmilega stöðugu verðlagi á að vera hægt að átta sig nokkuð vel á því sem í vændum er og á hvaða grunni menn byggja ákvarðanatökuna á hverjum tíma. Auðvitað geta síðan breytingar orðið og verða alltaf einhverjar. En mér finnst metnaður manna ekki mjög mikill að sulla þessu svona saman frammi fyrir alþjóð með þjóðhagsforsendurnar allar meira og minna á floti fram á síðustu stundu og milljarða tilhlaup í tekjum og gjöldum. Menn mega varla opna útvarpið þessa dagana án þess að fá nýjar fréttir af breyttum stærðum í þessum efnum.

Herra forseti. Þegar við ræddum um fjáraukalagafrv. við 2. umr. voru menn eðli málsins samkvæmt nokkuð uppteknir af útgjaldaþenslunni á sviði heilbrigðismála. Það var meginumfjöllunin við 2. umr. fyrir nokkrum dögum. Þá voru menn að setja samkvæmt tillögum meiri hlutans umtalsverðar fjárhæðir, milljarða kr. í aukin framlög í heilbrigðiskerfið. Sama var upp á teningnum að nokkru leyti við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir næsta ár. En það kemur á daginn að það er ekki bara í heilbrigðismálum sem hlutirnir eru á mikilli ferð heldur er það víðar. Ég spái því að útgjaldaþenslan sé vanmetin á ýmsum öðrum sviðum þar sem hún hefur kannski birst mönnum á annan hátt eða seinna en hún hefur gert í heilbrigðiskerfinu. Þar var líka við að glíma mikla vanáætlun sem haldið var fram að væri fyrir hendi við afgreiðslu fjárlaga í fyrra. Fjáraukalagafrv. og brtt. meiri hlutans og frv. eins og það lítur nú út eftir 2. umr. sem fór fram 8. desember sl. sannar að þar var um stórfellt vanmat að ræða, jafnvel þó að menn taki ýtrasta tillit til breytinga og ófyrirséðra þátta sem komið hafa upp á árinu, t.d. framgangskerfi í launum og annað slíkt.

Þá hljóta menn að spyrja, herra forseti, þegar um svona skekkjur er að ræða í efnahagsmálum okkar. Hættumerkin sem menn voru að vonast til að slá mundi á á haustmánuðum hafa ekki gert það heldur eru þau þvert á móti alvarlegri en menn reiknuðu með samanber hina nýju þjóðhagsspá sem ég ætla aðeins að koma að á eftir. Hvað hefur þá brugðist? Hvaða mistök hafa menn gert eða er þetta eitthvað sem er óviðráðanlegt? Er þetta eingöngu vandinn við að velja á milli? Er mikill hagvöxtur og þensla með þeim vaxtarverkjum og jafnvægisleysi sem þessu fylgir að ýmsu leyti eða er til einhver farsælli leið? Ég held að við hljótum að trúa á það ef við viljum að hér sé jafnt, stöðugt og gott efnahagsástand og viðgangur í efnahagslífinu.

Ég held að menn hafi algerlega vanrækt að líta til ýmissa þátta. Menn hafa ýtt til hliðar eða á undan sér að takast á við þá, að hluta til viljandi falið þá fyrir sjálfum sér og öðrum, sérstaklega af því að það hentaði ekki á síðasta ári og fram á mitt þetta ár að láta þá hluti vera mjög uppi á yfirborðinu.

Ég ætla að nefna þar í fyrsta lagi þann vanda, þá vanáætlun og aðferðafræði sem menn hafa stundað við að áætla útgjöld til mikilvægra málaflokka eins og t.d. í heilbrigðismálum. Það er augljóst mál að aðferðafræðin undanfarin ár fær falleinkunn í þeim staðreyndum sem núna blasa við okkur úr því kerfi. Hún fær einfaldlega falleinkunn. Hausaveiðar eða slíkar æfingar lækna ekki það mál að mínu mati. Ég held að ríkisstjórn og Alþingi, a.m.k. meiri hluti Alþingis, verði að líta í eigin barm og viðurkenna að það hvernig staðið hefur verið að og unnið að þessum málum hefur ekki skilað árangri undanfarið.

Í öðru lagi held ég að menn hafi gert mistök í hagstjórninni á undanförnum árum að farið hefur verið óvarlega með innspýtingu á fjármagni í hagkerfið. Stórar fjárfestingar sem stjórnvöld hafa komið að hafa bæst við þá þenslu sem verið hefur í efnahagslífinu og einkum á suðvesturhorninu. Stjórnvöld hafa komið að því að semja um miklar stóriðjuframkvæmdir og fleiri stórar framkvæmdir sem allar eru meira og minna á suðvesturhorni landsins. Þær hafa lagst við hraða íbúafjölgun á svæðinu vegna innstreymis fólks, einnig kemur til hækkandi fasteignaverð og fleiri þenslumerki sem verið hafa ljós um langt skeið og menn hafa látið eins og ekki þyrfti að hafa af því neinar áhyggjur.

Ég held að í þriðja lagi hafi menn gert hrein mistök í stjórn ríkisfjármála og í hagstjórn, þar sem voru t.d. hinar flötu skattalækkanir í miðri uppsveiflunni. Auðvitað eru þær eftir á að hyggja ekkert nema mistök, að hleypa því fé í umferð til viðbótar vaxandi kaupmætti ráðstöfunartekna einkum hjá hátekjufólki og til viðbótar mjög batnandi afkomu fyrirtækja hafa menn bætt milljörðum kr. í umferð með skattalækkunum, flötum skattalækkunum og beinum lækkunum t.d. á skattprósentu á hagnaði fyrirtækja og gengið þar miklu lengra en ástæða var til að gera.

Skattbreytingar hæstv. ríkisstjórnar sem sannanlega hafa gagnast barnlausu hátekjufólki best eins og allur samanburður sýnir eru auðvitað óskynsamlegar í ljósi þeirra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir og erfitt er að réttlæta þær eða rökstyðja á sama tíma og meðaltekju- og hátekjufólk, t.d. barnlaust hjónafólk, hefur aukið ráðstöfunartekjur sínar á fáeinum árum um 20%, líklega mest allra hópa. Ýmislegt í skattamálum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur verið misráðið. Menn geta sagt núna að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. Það er vissulega rétt að stefnan var mörkuð í þessum efnum í tengslum við kjarasamninga fyrir líklega um tveimur til þremur árum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær það var, fyrir þremur árum frekar en tveimur. Vissulega lágu ekki allar sömu aðstæður fyrir þá en þó, herra forseti, var þá reynt að hafa uppi varnarorð og spurt hvort þetta væri hyggileg stefna, ekki bara út frá réttlætissjónarmiðum, út frá spurningu um tekjudreifingu eða jöfnun heldur líka út frá hagstjórnarlegum viðmiðunum. Ég held að sýnt sé í ljósi þess sem síðast hefur gerst að svo er ekki.

Ef menn leggja jafnríka áherslu á tekjuafgang ríkissjóðs og menn gera, og það er ekki ósjaldan sem það stendur upp úr ráðamönnum að lækningin við þessu eigi að vera sú að skila ríkissjóði með stórauknum afgangi, eru menn þá ekki um leið að segja að það hefði verið enn betra að hafa viðbótartekjur upp á nokkra milljarða kr. inni í ríkissjóði sem menn hafa sleppt þaðan út með skattalækkunum? Ég held að það hljóti að vera og það sanni sig sjálft.

Ég nefni eitt enn, herra forseti, þar sem menn hafa ekki tekið á málum, flotið áfram sofandi sem nú er viðurkennt í flausturslegum brtt. um t.d. 700 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem er í sjálfu sér hið besta mál. Ég fagna því að það er viðurkennt að koma þurfi til móts við vanda þeirra sveitarfélaga sem þar standa verst að vígi, t.d. þau sem hafa misst frá sér fólk og misst frá sér tekjur á undanförnum árum. Með því eru menn að taka undir það sem ræðumaður hefur ítrekað reynt að fá til umræðu á undanförnum missirum, þ.e. tekjuskiptavandann milli ríkis og sveitarfélaga. Ég hef haldið því fram að menn hafi gert mistök í því að vera ekki búnir fyrir löngu að taka á því máli þegar ljóst er að ríkissjóður hefur búið við mjög batnandi afkomu eins og hann jafnan gerir þegar menn ríða upp á kúfinn í efnahagslegri uppsveiflu og það er innbyggt í kerfið, þá skila tekjur sér inn en útgjöldin koma kannski á eftir. Það er tímatöf í kerfinu, bil sem hjálpar ríkissjóði og hann græðir á þessu ákveðna tímabili hagsveiflunnar. Það er alveg augljóst, auðskilið mál og alþekkt úr sögunni.

En þetta snýr öðruvísi að sveitarfélögum auk þess sem ýmsar skattalagabreytingar og verkefnatilflutningur hefur sannanlega haft það í för með sér að mörg sveitarfélaganna hafa strítt við mjög erfiðar fjárhagsaðstæður. Mörg þeirra eru þannig að það fer hver einasta króna í rekstur. Það er ekkert afgangs til að mæta fjáruppbyggingu, fjárfestingum eða í að hrinda af stað umbótum sem kosta stofnfjárfestingar í mannvirkjum, skólum eða öðru slíku. Þessum tekjuskiptavanda ríkis og sveitarfélaga hafa menn ýtt á undan sér. Síðasta ríkisstjórn gerði ekkert af viti í þeim málum, ekki neitt. Nú hafa menn að vísu viðurkennt vandann með því að skipa ótal nefndir út og suður og setja sjálfa sig í allar nefndirnar eins og hv. þm. Jón Kristjánsson. Það er ekki nóg að hv. þm. sé formaður fjárln. heldur er hann líka formaður í alls konar vinnunefndum út um dal og hól sem eru að glíma við þætti sem tengjast sjálfum fjárlagavandanum.

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé að ljúka ræðu sinni eða hvort nauðsynlegt sé að fresta henni vegna matarhlés.)

Ég vil nú spyrja hæstv. forseta hvort honum heyrist það.

(Forseti (HBl): Mér fannst hv. þm. óvenjumælskur.)

Nei, ég á nokkuð eftir, herra forseti, þannig að ég mundi þá fá að gera hlé á ræðu minni.

(Forseti (HBl): Þá verður gert hlé á ræðu hv. þm. þangað til eftir matarhlé.)