Afbrigði um dagskrármál

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 20:31:47 (2900)

1999-12-14 20:31:47# 125. lþ. 45.94 fundur 218#B afbrigði um dagskrármál# (afbrigði við dagskrá), RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[20:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um þessa atkvæðagreiðslu. Afbrigði sem hér er verið að kalla eftir höfum við gjarnan kallað ,,þrátt fyrir``-ákvæðið, þ.e. þegar heimila á að ákveðnir tekjustofnar sem eiga að renna til sérstakra verkefna, hluti þeirra eða þeir að öllu leyti, renni í ríkissjóð. Á dagskrá þessa fundar eru fjögur slík mál, þ.e. ákveðnir tekjustofnar eiga að renna til fastra verkefna en ríkisstjórnin ákveður að hluti þeirra sé tekinn í ríkissjóð.

Ég kveð mér hljóðs til að gagnrýna hve seint þessi frumvörp eru fram komin. Við erum vön því, herra forseti, að mál sem taka á fyrir á haustþingi og ljúka fyrir jól koma mjög seint fram. Við erum löngu búin að læra að það er ekki tímaskortur sem veldur heldur vegna þess að mönnum þykir það henta að málin stoppi stutt við, fái litla athygli og séu helst rifin út úr nefndum fyrir jól og afgreidd.

Í máli sem heitir Brunavarnir og brunamál fyrir nokkrum kvöldum spurðist ég fyrir um hvað liði öðrum slíkum frv. sem von væri á. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að 3. liður á dagskrá þessa fundar sem hér er verið að leita eftir afbrigðum um, ráðstöfun erfðafjárskatts, er ekki seinna til komin hjá ríkisstjórninni en svo að það lá fyrir þann 1. okt. sl. Þetta eru auðvitað hvimleið vinnubrögð. Þau eru fyrst og fremst hvimleið vegna þess að þau eru vond. Það er illa haldið á málum, það er verið að henda málum hingað inn í síðustu viku þingsins sem hefðu átt að koma fyrir löngu og greiða afbrigði um að taka þau á dagskrá vegna tímaskorts.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, gagnrýna það hversu mál koma almennt seint fram þannig að leita þurfi sérstakra afbrigða um þau.