Afbrigði um dagskrármál

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 20:35:10 (2902)

1999-12-14 20:35:10# 125. lþ. 45.94 fundur 218#B afbrigði um dagskrármál# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[20:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að greiða þessum afbrigðum atkvæði en þó með miklum semingi eins og einhvern tíma var sagt hér. Ég verð að segja að mér finnst þetta yfirgengilegt sleifarlag af hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum að þeir sem bera ábyrgð á störfum og tek þar undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Það er yfirgengilegt að loksins nú skuli frumvörp vera að birtast og það þurfi að taka þau á dagskrá með afbrigðum. Fyrir hefur legið síðan 1. okt. að flytja þyrfti þau til að afla heimilda vegna skerðinga á sérmerktum tekjustofnum Framkvæmdasjóðs fatlaðra og aldraðra. Það er væntanlega ekki nein ný uppgötvun hjá mönnum úr því að það liggur fyrir að þetta þurfi að gera. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að ekki er hægt að koma því fram fyrr en um miðjan desembermánuð? Það er ekki von að vel gangi með störfin, herra forseti, ef undirbúningurinn er allur með þessum hætti.

Það er óhjákvæmilegt að lýsa mikilli undrun á þessum vinnubrögðum og mótmæla þeim en þetta er svo sem það sem við megum búa við í fleiri tilvikum þessa klukkutímana eins og kunnugt er.