Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 14. desember 1999, kl. 21:21:29 (2904)

1999-12-14 21:21:29# 125. lþ. 45.1 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 125. lþ.

[21:21]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Mig langar að koma inn á ákveðin mál við þessa umræðu. Af og til eru að birtast merki um að sjávarútvegsstefnan okkar, frjálsa framsalið í kvótakerfinu, hafi ýmis áhrif. Við sáum það á síðasta kjörtímabili er tekin var ákvörðun um að búa til sérstakan byggðakvóta. Honum var ætlað að koma inn þar sem erfiðleikar hafa orðið vegna þess að aflaheimildir og þar með atvinna fólks hefur horfið úr byggðarlaginu.

Á undanförnum árum hef ég varað við því að þessi útfærsla fiskveiðistjórnar með frjálsu kvótaframsali hefði ýmsar hliðar sem við þyrftum að huga að. Mér finnst að alltaf séu að koma betur og betur í ljós, þó menn hafi ekkert sérlega hátt um það, afleiðingar þessa kerfis. Fyrsta aðgerðin til að bregðast við því var þegar Byggðastofnun fékk 1.500 tonna kvóta til þess að bregðast við ástandinu.

Í fjáraukalagafrv. birtist hins vegar einn angi þessa máls undir liðnum Félagsmálaráðuneyti þar sem lagt er til að komið verði til aðstoðar við sveitarfélög sem höllum fæti standa með 700 millj. kr. sérstöku framlagi. Þetta er lagt til vegna sérstakra tímabundinna ráðstafana. Ég dreg í efa að þetta dugi sem tímabundin ráðstöfun. Ég hygg að í nokkuð mörgum sveitarfélögum sé svo komið að algjört tekjufall hafi orðið. Það sem hér er verið að setja inn í fjáraukalögin er ekki endilega tímabundin ráðstöfun, hún gæti þurft að vara í talsverðan tíma til að mæta þeim afleiðingum. Hér kemur fram að þetta skuli fara til sveitarfélaga þar sem orðið hefur mikil fækkun íbúa á árunum 1997--1999 og sveitarfélög hafa ekki haft aðstæður til að draga úr þjónustu í samræmi við fækkun íbúa.

Í raun er ekkert í þessu plaggi sem setur ástandið í beint samhengi við fiskveiðistjórnarlögin eða það að kvóti og atvinna hafi verið seld úr byggðarlögum. Engu að síður eru þetta bein viðbrögð við því. Í því samhengi nægir að vitna til skýrslu Byggðastofnunar sem við ræddum hér fyrir örfáum dögum. Þar sagði að ein meginástæða þess að fólk flytti úr byggðarlögum væri sú að aflaheimildir hefðu verið seldar þaðan, að fólk fyndi til óöryggis og flytti því ef það ætti þess kost.

Þetta er eitt af því sem ætlað er að taka á hluta afleiðinga núverandi útfærslu á fiskveiðistjórnarkerfinu. Eins og allir vita er það kerfi þannig úr garði gert að réttur fólksins er enginn, algjörlega fyrir borð borinn. Menn reyna að bæta örlítið fyrir með smávægilegum fjárveitingum þegar vandræðin eru orðin mikil og fyrirsjáanlegt er að þau aukist.

Þrátt fyrir að hér sé talað um tímabundnar aðgerðir og sérstakar greiðslur þá er ég ekki viss um að svo verði. Við erum alltaf að upplifa breytt ástand í mismunandi byggðarlögum, síðast á Ólafsfirði, þar áður Hrísey og þannig mætti áfram telja. Þetta hefur verið að gerast undanfarin tíu ár en þó kannski einkum síðustu fimm til sjö árin. Fyrirtæki hafa komið inn í atvinnurekstur í þessum byggðarlögum, tekið til sín aflaheimildirnar, farið síðan og skilið byggðirnar eftir í slæmri stöðu og fólkið atvinnulaust með mjög skerta eignarstöðu. Hér er ekkert sérstaklega tekið á því. Hér er vikið að vanda sveitarfélaganna sem vissulega er vandi fólksins að hluta en hér er ekki tekið á því að fólk er að tapa atvinnu sinni.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem mig langar að víkja hér að. Þessir smábútar til að plástra kerfið munu auðvitað ekki duga til að laga það, plásturinn mun ekki leysa vandamálið sem innbyggt er í fiskveiðistjórnarkerfi okkar eins og það er úr garði gert. Ástandið verður ekki bætt nema tekist verði á við þann vanda sem innbygður er í kerfið og hann skoðaður upp á nýtt, ella verðum við ævinlega með ný vandamál sem snúa að atvinnurétti þessa fólks.

Hæstv. fjmrh. sagði fyrr í dag að sennilega mundi ríkissjóður snúa sér að því að greiða niður innlendar skuldir í meiri mæli en hinar erlendu. Þá kemur væntanlega aukið fé inn á markaðinn innan lands. Mig langaði að beina til hæstv. fjmrh. spurningu: Gæti það þýtt að meiri flýtir verði á því að selja fyrirtæki í eigu ríkisins á næsta ári en ella væri? Kannski má einnig velta upp annarri spurningu: Var sú ákvörðun, sem samþykkt var hér á hv. Alþingi nýverið, að selja 15% hlut í Búnaðarbanka og Landsbanka, tekin m.a. til að mæta því að fjmrh. gerði ráð fyrir að greiða upp meira af skuldum innan lands og þá þyrfti að vera hægt að festa það fé einhvers staðar aftur? Þetta gæti boðað það að hraðar verði farið í málin en sagt var í þessum ræðustól fyrir örfáum dögum síðan.

[21:30]

Þá langar mig aðeins að víkja að skuldastöðu hinnar venjulegu íslensku fjölskyldu. Skuldir fjölskyldnanna í landinu eru að aukast og það er mikill vágestur á ferðinni ef verðbólgan heldur áfram að aukast eða vera eins og hún er í dag. Ég hef upplifað að búa í þessu þjóðfélagi í mikilli verðbólgu og ég óska ekki íslenskum fjölskyldum, sem hafa verið að skuldsetja sig á undanförnum árum, þess að verðbólgan fari hér vaxandi. Það gæti orðið til þess að hér yrði algjört upplausnarástand hjá mörgum fjölskyldum. Það fyrirkomulag sem er á fjárfestingum fjölskyldna í dag, þar sem menn taka iðulega á sig langtíma greiðslubyrði við að eignast t.d. bíla, ég tala ekki um heimili, gæti hreinlega skapað mjög mikið upplausnarástand ef verðbólgan næði sér á skrið eða yrði áfram kannski milli 5 og 6%. Ekki þarf mikið út af að bera þegar svo horfir eins og nú að allar líkur séu til þess að okkar helsti undirstöðuatvinnuvegur eigi frekar á brattann að sækja tekjulega séð, verð á mörkuðum hefur lækkað og það hefur ekki gengið vel að veiða suma fiskstofna þannig að það er tekjufall í sumum greinum sjávarútvegsins og við vitum alls ekki hvort þar verður bati á næsta ári þó við vonum það vissulega öll. Það væri skelfilegt ef það gerðist ekki að t.d. loðnuveiði mundi aukast á næstu vetrarvertíð. Þá sætum við uppi með afar mikið vandamál og við gætum verið að byrja á skarpri niðursveiflu í tekjum þjóðfélagsins á sama tíma og verðbólgan væri jafnvel að fara upp.

Þetta er það helsta sem ég vildi sagt hafa undir umræðunni um aukafjárlögin og ég vona að okkur takist vel til. Það er von allra Íslendinga að okkur takist vel til á næsta ári og næstu árum. En það eru mörg viðvörunarmerki á lofti um að við skulum staldra við og hugsa okkar gang eins og maður segir á vestfirsku.