Lokaumræða fjárlaga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 10:36:28 (2911)

1999-12-15 10:36:28# 125. lþ. 46.91 fundur 219#B lokaumræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Varðandi það að fjárlög skuli koma til 3. umr. í dag þá vil ég taka fram að ég tel að sá undirbúningur sem við höfðum til að ganga frá þeim til 3. umr. hafi í sjálfu sér verið of skammur miðað við hve seint gögn komu fram. Þau voru að koma fram alveg fram á kvöld í gærkvöldi og mun eðlilegra og sanngjarnara hefði verið gagnvart störfum þingsins og gagnvart þeirri ábyrgð sem þetta mál hefur að umræðunni hefði verið frestað um einn dag.

Ég tek hins vegar undir ánægju með það að nefndin skuli að öðru leyti standast áætlun í vinnu sinni enda stóð ekki á nefndinni sem slíkri heldur á þeim gögnum sem henni bar að hafa fengið bæði frá framkvæmdarvaldinu og öðrum.

Hins vegar finnst mér, herra forseti, afar óeðlilegt við svo stór mál eins og afgreiðslu fjárlaga sé hrúgað inn á dagskrá fjöldanum öllum af málum sem skipta minna máli. Þetta er dagur afgreiðslu fjárlaga.