Lokaumræða fjárlaga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 10:37:50 (2912)

1999-12-15 10:37:50# 125. lþ. 46.91 fundur 219#B lokaumræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er leitt að þurfa að blanda sér inn í þessa helgistund milli stjórnarliða með þeim hætti sem ég neyðist þó til að gera vegna þess að ég get ekki tekið undir það að hér sé tilefni til sérstakra hátíðahalda vegna þess að það sé sérstaklega glæsilegur svipur á afgreiðslu þingsins á fjárlögum. Ég held að bæði þjóð og þing hafi horft upp á það í gær hvernig búið var að þingstörfunum hvað varðaði undirbúning og grundvöll ákvarðanatöku við afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga að menn voru á hlaupum með þjóðhagsáætlun í gær og kynna hana af minnisblöðum fyrir fjárln. og það rétt tókst að bjarga því fyrir horn að efh.- og viðskn. afgreiddi álit sitt á tekjuhlið fjárlaga áður en hún hafði fengið nýja þjóðhagsspá. Þannig er það, herra forseti.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði að í raun og veru hefði verið lágmark að fresta umræðunni um sólarhring þannig að menn hefðu getað dregið andann eins og þrisvar í kjölfar þess að þeir voru búnir að fá nýja þjóðhagsspá áður en þeir sulla þessu öllu saman. Ég held, herra forseti, að ekki sé tilefni til að hrósa þessu hvað vinnubrögð snertir og vandaðan og faglegan undirbúning undir þessa afdrifaríku ákvarðanatöku sem afgreiðsla fjáraukalaga og fjárlaga eiga auðvitað að vera nema þá aðeins að einu leyti og það er að forminu til, að menn séu að ræða fjárlög á settum degi samkvæmt löngu fyrir fram samþykktri starfsáætlun. Menn geta auðvitað glaðst yfir litlu og litlu verður Vöggur feginn, segir gamalt máltæki. En ef vantar þá undirbyggingu og þá faglegu umfjöllun sem á að vera forsenda vandaðrar ákvarðanatöku, herra forseti, þá er það auðvitað ekki nógu gott að hugga sig við það eitt að forminu sé fullnægt að umræðan fari fram á réttum degi með góðu eða illu.