Lokaumræða fjárlaga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 10:39:50 (2914)

1999-12-15 10:39:50# 125. lþ. 46.91 fundur 219#B lokaumræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hlý orð í minn garð og minna vandamanna. Auðvitað er það ánægjuefni að hann skuli fagna því að störf fjárln. hafi breyst með nýjum mönnum en að sönnu er það ekki síst vegna þess að fyrir nokkrum árum voru samþykkt ný lög um fjárreiður ríkisins og má segja að þau hafi sett meiri aga og strangara aðhald að fjárln.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég hefði mjög gjarnan viljað hafa meiri tíma til þess að véla um þessi fjárlög og þær tillögur og þá umræðu sem fer fram í dag í ljósi þess að í gær kom þjóðhagsáætlun sem segja má að hafi, þrátt fyrir orð hæstv. forsrh., kollvarpað því sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárln. og reyndar utan hennar hafa verið að segja um framvindu efnahagsmála. Það hefði verið miklu betra fyrir okkur að hafa svolítinn tíma, ekki síst hv. þm. meiri hlutans, til að kanna hvort ekki væri rétt að grípa með einhverjum öðrum hætti inn í framvindu efnahagsmálanna í gegnum fjárlög eins og Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun segja í dag, við hefðum þurft meiri tíma til þess.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta er fagnaðarefni. Ég er ekki sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ekki sé ástæða til þess að fagna þó að við séum að fylgja þessu að forminu vegna þess að það er alltént fyrsta skrefið. Ég hef staðið í þessum stóli og hef einmitt verið að skamma hv. þingmenn meiri hlutans fyrir það að þeir fara ekki að lögum um fjárreiður, t.d. varðandi fjáraukalög, í nægilega ríkum mæli og ég vek eftirtekt á því að í nefndarálitum minni hlutans hefur verið bent á að við teljum að hv. þingmenn meiri hlutans fari ekki að lögum um það. En guð láti gott á vita. Hér erum við væntanlega að fara inn á nýjar brautir. Ég tek hins vegar eftir því að það virðist sem kominn sé frambjóðandi til embættis forsrh. því að hv. þm. Pétur H. Blöndal þakkaði ekki bara fjárln. heldur öllum hinum nefndum þingsins líka eins og góðum landsföður ber. Til hamingju með þennan sjálfskipaða titil, hv. þm.