Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 10:59:14 (2924)

1999-12-15 10:59:14# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[10:59]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem hér er verið að mæla fyrir um, þ.e. að skerða framlög til Endurbótasjóðs menningarbygginga þá vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að ég get í sjálfu sér fallist á að draga eigi úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Hvort þessi valkostur eigi að koma þar inn í eða ekki, er ég síður sammála um.

En ef markmiðið var að auka jafnvægi, þá finnast næg verkefni út um land, nægar menningarstofnanir og menningarverkefni sem fyllsta ástæða hefði verið til að verja þessu fé til. Þar eru verkefni næg. Það hefði ekki aukið á þenslu. Það hefði frekar styrkt menningarstaði á landinu í heild sinni og það að styrkja menningarstarfið er að styrkja grundvöll þjóðarinnar og dregur og hamlar þenslu bæði til skemmri og lengri tíma.

Herra forseti. Mér finnst að þarna hafi ríkisstjórnin ekki nýtt það tækifæri sem hún er sjálf að leggja upp í hendur varðandi ráðstöfun fjár. Hún hefði átt úr því að sátt var um að draga skyldi úr framkvæmdum hér að láta þetta fé ganga langt í menningarbyggingar úti á landi til að styrkja þar bæði atvinnulíf og verkefni því brýn nauðsyn er að taka þar á. Þar eru verkefnin næg, herra forseti.