Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:01:03 (2925)

1999-12-15 11:01:03# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Þetta er fyrsta frv. af fjórum sem verða núna tekin til umfjöllunar, svokölluð skerðingarfrumvörp. Í þessu tilviki er um það að ræða að gera breytingu á lögum frá 1989 um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga og er lagt til að tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 480 millj. renni í ríkissjóð á árinu 2000 en hefði ella runnið í þennan sérstaka sjóð. Skerðingin í þessu tilviki nemur 146 millj. kr.

Það vekur athygli að í athugasemdum við þetta lagafrv. og önnur skerðingarfrumvörp segir svo ég orði það orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með slíkum ákvæðum er fjárveitingavald Alþingis`` --- og þá er verið að vísa til þeirrar ákvörðunar Alþingis að binda sig til langs tíma --- ,,í raun fyrir fram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Ákvæði um lögmælt framlög verða því að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja, enda þótt þörf fyrir sérstakar aðgerðir sé minni nú en oft áður.``

Samsvarandi orðalag er í þessum skerðingarfrumvörpum almennt, þetta kemur einnig fram í frv. um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, og í frv. til laga um málefni fatlaðra.

Það sem löggjafinn hafði væntanlega í huga þegar þessir afmörkuðu tekjustofnar voru festir í lög var að tryggja ákveðna samfellu þannig að menn gætu skipulagt sig fram í tímann. Þetta hefur hins vegar reynst mörgum ríkisstjórnum erfitt þegar þær hafa viljað ráðast í skerðingar, t.d. á framlagi til málefna fatlaðra eða til uppbyggingarstarfs af þessu tagi að búa við þessi lagaákvæði. Þetta hefur t.d. átt líka við um tekjustofna Ríkisútvarpsins sem hefur haft og hafði um skeið talsverðar tekjur af aðflutningsgjöldum sjónvarpstækja ef ég man rétt.

Í greinargerð með frv. sem hér er verið að gera breytingar á var vísað í að það hefði tvíþættan tilgang, annars vegar að fylgt væri ítrekuðum áformum um að ljúka smíði Þjóðarbókhlöðu og hins vegar að skapa efnahagsgrundvöll fyrir aðkallandi framkvæmdir fyrir endurbætur og viðhald af húsakosti ýmissa menningarstofnana þjóðarinnar og gömlum byggingum sem unnt er að varðveita vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Í greinargerðinni er sérstaklega vísað til Þjóðleikhússins og Þjóðminjasafnsins en eins og kunnugt er var ráðist í verulegar breytingar á Þjóðleikhúsinu. Hins vegar vantaði upp á að tryggð væri nægilega góð aðstaða fyrir fatlaða. Aðgengismálin í Þjóðleikhúsinu eru ekki nógu góð en síðan hefur verið ráðist í breytingar og endurbætur á Þjóðminjasafninu. Í greinargerðinni sem birtist með umræddu frv. á sínum tíma er mikill listi yfir stofnanir og byggingar sem þurfi á endurbótum að halda.

Það kunna að vera rök í sjálfu sér að á þenslutímum sé rétt að draga úr verklegum framkvæmdum á vegum hins opinbera. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að rétt sé að líta kannski sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins eða þar sem þenslan er mest en vera reiðubúinn að veita fjármagn þangað sem þörf er á að herða á snúningi hjóla efnahagslífsins. En ég ætla ekki í sjálfu sér að fordæma slíkar hagstjórnaraðferðir, ég geri það ekki, en vek aðeins athygli á því að það er annað og meira sem hangir á spýtunni. Sú skerðing sem gerð er á afmörkuðum tekjustofnum er engin ný bóla. Þetta er sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri.