Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:12:02 (2928)

1999-12-15 11:12:02# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Sú afstaða ríkisstjórnarinnar að vilja draga úr þensluáhrifum á höfuðborgarsvæðinu er skiljanleg, en það er mikill vandi að velja hvaða verkefni á að skera niður eða hætta við.

Því miður hefur verið farin sú leið í mörgum tilvikum að hætt er við verkefni sem þegar eru hafin, samanber byggingu við Alþingishúsið og eins má nefna Þjóðarbókhlöðuna. Þarna eru verkefni í gangi sem mjög óheppilegt er að hætta við.

Með tilliti til þess vilja ríkisstjórnarinnar að draga úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu hefði verið mjög auðvelt að koma þessu fjármagni fyrir víða úti um land þar sem menningarstofnanir eru að grotna niður eða verja þessu fé til nýbygginga eða annarra verka sem falla undir þennan málaflokk. Ég vil taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að Reykjavík verður menningarborg á næsta ári og mikið er lagt undir af Reykjavíkurborg og kemur þar auðvitað einnig framlag úr ríkissjóði og því hefði örugglega mátt nota þessa fjármuni á höfuðborgarsvæðinu. Með þeirri viðleitni að draga úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu hefði mátt færa þá fjármuni út á land.