Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:20:18 (2932)

1999-12-15 11:20:18# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta er ákaflega mikilvægur tekjustofn og ég hef þar af leiðandi stutt hann í gegnum þykkt og þunnt í allri hans tíð á þinginu síðan ég hef komið við sögu, en það gegnir auðvitað öðru máli þegar tekjustofninn er orðinn að hluta til skattstofn fyrir ríkissjóð. Hæstv. ráðherra hlýtur að skilja það þó ekki væri nema til gamans að vekja athygli á þeirri staðreynd að það er áhugavert í ljósi þeirrar hörðu og hatrömmu andstöðu sem sjálfstæðismenn hafa haft uppi gagnvart skyldri skattlagningu, álagningu á eignarskatt og sérstöku álagi á hann gegnum tíðina og valið því ýmis nöfn sem ég ætla ekki að hafa eftir.