Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:22:30 (2934)

1999-12-15 11:22:30# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:22]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki ástæða fyrir hæstv. ráðherra að bregðast við eins og hann gerði áðan, að stökkva upp á nef sér og segja að hér sé verið að gera lítið úr því sem vel er gert því það er sannarlega ekki svo. Það má mæra og prísa þau verk sem vel hafa verið unnin og í þessu hefur mikið verið vel gert og auðvitað er verið að gera vel í Þjóðminjasasfninu.

Hitt hefði verið sýnu glæsilegra ef okkur hefði tekist að hafa Þjóðminjasafnið opið á þeim árþúsundamótum sem fram undan eru. Því er ekki að heilsa en, herra forseti, við skulum bara athuga að hér er mikilvægur tekjustofn á ferðinni til mikilvægra verka. Það er ekki verið að tala um stóra skerðingu á honum heldur einungis 146 millj. sem eiga þá að fara í hítina í ríkissjóði. Það er það sem hér er verið að mæla gegn, en um leið er verið að lýsa yfir miklum stuðningi við alla þá viðleitni sem hefur verið í gangi og er í gangi til að viðhalda menningarstofnunum en hún ætti að vera meiri.