Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:23:45 (2935)

1999-12-15 11:23:45# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það undrar mig mjög að hæstv. ráðherra skuli ekki fagna þegar hann fær svo öflugan stuðning frá stjórnarandstöðunni við að Endurbótasjóður menningarstofnana skuli vera óskertur. En það er öðru nær. Ráðherrann brást hinn versti við og mér skilst á málflutningi hans að það sé heldur til bóta að framkvæmdum við endurbætur á Þjóðminjasafni verði fresta um ár vegna þess að þeir sem skipuleggi verkið þurfi að hugsa sig um.

Ég get svo sem tekið undir það með hæstv. ráðherra ef það er þannig að byrjað hafi verið á verkinu án þess að það hafi verið skipulagt til enda hvernig hlutum skyldi fyrir komið í Þjóðminjasafninu eftir að verkinu væri lokið. Ég taldi svo sjálfsagt að það hefði ekki verið byrjað að flytja Þjóðminjasafnið burtu áður en búið hefði verið að skipuleggja hvernig viðgerðin mundi enda.