Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:31:36 (2941)

1999-12-15 11:31:36# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þann skilning sem hann hefur á þessu máli. Ég vissi reyndar um það fyrir fram vegna þess að hæstv. ráðherra hefur lagt gjörva hönd að þessu verki. Ég vek athygli á því að hluti af þessu endurbótastarfi á menningararfleifðinni felst til að mynda í því að menn geti unnið með viðkvæm skjöl án þess endilega að handfjatla þau. Það hafa komið fram hugmyndir um, og það þarf að gera í framtíðinni, sérstaka myndastofu á einhverju þessara safna eða stofnana sem hæstv. ráðherra nefnir hér þar sem menn taka myndir af skjölum og geta þar af leiðandi vélað og fjallað um þau án þess að þurfa að handfjatla þau.

Hæstv. ráðherra velti því upp í umræðunni hvort hægt væri að sameina stofnanir af þessu tagi. Ég vil láta þess getið, herra forseti, að það hafa komið fram hugmyndir innan þessara stofnana um að koma upp svona viðhaldsstofu, til að mynda myndastofu, úti á landsbyggðinni. Reyndar hafa menn nefnt menningarsetrið í Reykholti sem tilvalinn stað undir það.

Ég nota tækifærið, herra forseti, til þess að nefna þetta því ég held að þetta sé vandamál sem við verðum að taka á til framtíðar. Við þurfum ekki endilega að ráðast í það núna en ég held að við þurfum með einhverjum hætti að taka á því. Ég er þeirrar skoðunar að það sé a.m.k. raunhæfur möguleiki í þessari stöðu að hugsa til þess hvort ekki sé rétt að breyta lögum sem fjalla um viðhald menningarstofnana og láta þau fjalla um viðhald menningararfleifðarinnar. Þannig mætti jöfnum höndum veita fé sem rennur til ríkisins af þessum skattstofni til endurbóta á skjölum og munum jafnt og húsum.