Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:09:48 (2947)

1999-12-15 13:09:48# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:09]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur rakið málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra og gert að umtalsefni þá skerðingu sem frv., sem er til umræðu, gerir ráð fyrir og beint til mín spurningum um sjóðinn. Það er rétt að sá háttur hefur verið hafður á að skerða framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Hitt er svo annað mál að önnur framlög til fatlaðra hafa á sama tíma verið hækkuð um verulegar upphæðir og m.a. er í fjárlagafrv. nú gert ráð fyrir 285 millj. kr. hækkun til þessa málaflokks og þar af 100 millj. til að standa straum af þeim tillögum sem biðlistanefndin svokallaða, sem ég átti sæti í, gerði tillögur um.

Á fjárlögum ársins 1999 var gert ráð fyrir að mæta tillögum nefndarinnar en hún komst að þeirri niðurstöðu að sérstaklega á þessu svæði, Reykjavík og Reykjanesi, væri tilfinnanleg biðröð og gerði áætlanir um bráðaaðgerðir til þriggja ára og síðan langtímaáætlun til sjö ára um hvernig ætti að standa að þessu verki. Að því er unnið og ég hef sagt það áður að ég vil stuðla að því að þau plön geti haldist. Síðan er ákvörðunarefni hvort það á að gerast í gegnum Framkvæmdasjóð fatlaðra. Sú leið hefur verið farin að gera það með beinum framlögum á fjárlögum að skerða sjóðinn en það er sem sagt ákvörðunarefni hverju sinni.