Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 13:52:16 (2953)

1999-12-15 13:52:16# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. kom aðeins inn á hagfræði mína eða Samfylkingarinnar, að ekki væri betur stjórnað. Þetta væri allt á leið til betri vegar, gætt hafi verið aðhalds í ríkisfjármálum o.s.frv. Hver er viðskiptahallinn, sem í byrjun október var spáð að yrði 29 milljarðar? Hann er 38 milljarðar. Hvergi nokkurs staðar getum við fundið aðra eins þróun, hæstv. ríkisstjórn, nema á Nýja-Sjálandi. Hreinar erlendar langtímaskuldir fara vaxandi. Þær voru 46--47% af vergri landsframleiðslu fyrir þremur árum en stefna nú í yfir 50%. Verðbólguhjólið er farið af stað, síðustu 12 mánuði mældist verðbólgan 5,6% og þrátt fyrir tekjuaukann sem hæstv. ríkisstjórn hefur fengið á undanförnum árum hefur hún eytt og spreðað þannig að á síðasta kjörtímabili jukust útgjöld ríkisins um 55 milljarða og Seðlabankinn sagði í skýrslunni fyrrahaust: Æ, hæstv. ríkisstjórn, vonandi ferðu að passa þig. Og aftur í skýrslunni í vor. En núna er alltaf eins og hæstv. ráðherrar detti ofan úr skýjunum, þeir hafi ekki hlustað á þá umræðu sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og alls ekki á efnahagssérfræðinga, hvorki innlenda né erlenda vegna þess að núna á að fara að gæta aðhalds. En hvenær, vel að merkja? Þegar búið er að samþykkja öll aukaútgjöldin á fjáraukalögum og fjárlögum á að fara að gæta aðhalds. Hvar á aðhaldið að koma fram fyrir utan það að skerða sjóði eins og Framkvæmdasjóð fatlaðra? Jú, farið er fram á að verkalýðsfélögin geri ekki miklar kröfur fyrir sitt fólk. Það verði aðhaldssamir kjarasamningar. Launafólk í landinu hefur lagt ómælt á sig til að viðhalda stöðugleikanum og hafi tekist í einhver ár fram til dagsins í dag að vinna þannig þá er það launafólki að þakka en ekki hæstv. ríkisstjórn.