Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:00:10 (2959)

1999-12-15 14:00:10# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Munurinn á framkvæmdinni er að fatlaðir fengu allar tekjur af erfðafjárskatti í tíð minni sem ráðherra en fá ekki núna. Það er verið að stela af þeim fjármunum sem þeir eiga að fá og færa í ríkissjóð. Það er munurinn.

Hæstv. ráðherra svarar ekki tveimur mikilvægum spurningum: Liggur fyrir hvar leiguhúsnæði verður fyrir þau fimm sambýli sem á að koma á fót á næsta ári? Það er mikilvægt að það liggi fyrir hér. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því af því að við höfum lítinn tíma til að ræða hér stöðuna í málefnum fatlaðra. Ég vonaðist til að hann gæti svarað því, já eða nei. Er tekið fullt tillit til þess í nýjum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þar sem á að fella inn í þau lögin um málefni fatlaðra, að langveik börn fái sambærilega þjónustu og fatlaðir eins og lagt var til hér með þáltill.? Ráðherrann getur svarað því, já eða nei. Það er mikilvægt að halda því til haga. Af þessu sést að við hefðum auðvitað þurft miklu meiri tíma til að ræða þetta mál en hér er gefinn.

Síðan liggur það fyrir að sjóðurinn hefur verið skertur í tíð núv. ríkisstjórnar og núv. félmrh. um að minnsta kosti 1.200 millj. Það er staðfest í þessum umræðum af hv. formanni fjárln. að sú upphæð hefði dugað til að mæta þeirri þörf sem við stöndum frammi fyrir varðandi búsetu fatlaðra núna þegar tæplega 400 manns eru á biðlista. Þeir biðlistar væru ekki til staðar í dag ef ráðherrann hefði ekki staðið að skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra eins og raun ber vitni. Það er staðreynd málsins. Sú tala er rétt og ráðherrann þarf ekki nema fletta upp fjárlögum til þess að sjá að aukningin í rekstrarkostnaði á næsta ári er minni en tekjurnar sem hæstv. ríkisstjórn er að stela af Framkvæmdasjóði fatlaðra og færa í ríkissjóð.