Ráðstöfun erfðafjárskatts

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:10:46 (2962)

1999-12-15 14:10:46# 125. lþ. 46.4 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. og reyndar tvö frv. Þótt annað sé formlega komið til umfjöllunar þá fjalla frv. tvö um sama efni. Annars vegar er á dagskrá frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, en frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila er formlega til umfjöllunar núna. Frv. ganga út á að skerða framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um 344 millj. Til þess að þetta nái fram að ganga þarf að gera breytingar á tvennum lögum.

Það er mjög athyglisvert að kynna sér grg. með frv. til þeirra laga. Þar eru annars vegar lög frá 1952 en í þeim kemur fram að erfðafjárskattur hafi á þeim tíma átt að renna til Tryggingastofnunar og samkvæmt lögunum er ákvæði um að fjármununum skuli varið til að reisa vinnuheimili eða vinnuhæli. Greinargerðin er ágætlega orðuð að mínum dómi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Við Íslendingar höfum ekki efni á því að láta nokkurn mann sem eitthvað getur unnið sitja auðum höndum vegna skorts á hentugum verkefnum og vinnustað. Vinnuheimili kosta mikið fé. Til vinnustöðva með nauðsynlegum tækjum og útbúnaði öllum þarf og mjög veruleg stofnfjárframlög. Er því nauðsynlegt ef tryggja skal framkvæmdir að sjá fyrir ákveðnum tekjustofni í þessu skyni. Erfðafjárskatturinn ásamt arfahluta ríkissjóðs er í frv. til fjárlaga fyrir 1952 áætlaður 800 þús. kr. Þess má þó sennilega vænta að hann reynist nokkru hærri, sennilega um hálf milljón kr. á ári. Virðist hyggilegra að nota þennan tekjustofn sem tekinn er af eignum framliðinna til þess að koma upp varanlegum fasteignum til hjálpar öryrkjum og til að létta byrðar þjóðfélagsins af framtíðinni heldur en láta hann verða árlegan eyðslueyri.``

Þetta sagði í grg. með frv. til laga frá 1952 sem nú er verið að breyta.

Hin lögin sem tengjast þessu máli eru lög um málefni fatlaðra og þar er gerð breyting á 40. gr. laganna þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

[14:15]

,,Tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra eru:

1. Óskertar tekjur Erfðafjársjóðs.`` Þessu á að breyta.

Síðan segir í 40. gr. til hvers framkvæmdasjóður er ætlaður:

Sjóðurinn skal fjármagna stofnkostnað þjónustustofnana fatlaðra og heimila fatlaðra.

Sjóðurinn fjármagnar þjónustustofnanir og heimili fatlaðra á vegum sveitarfélaga.

Heimilt er sjóðnum að veita félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum styrk til að koma á fót þjónustustofnunum og heimilum fatlaðra.

Sjóðnum er heimilt að veita framkvæmdaraðilum félagslegra leiguíbúða og kaupleiguíbúða í leigu styrk, sbr. lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. Síðan er kveðið á um hvernig að því skuli staðið.

Heimilt er að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga með það að markmiði að hreyfihamlaðir og blindir geti athafnað sig með eðlilegum hætti. Framlag úr sjóðnum skal aldrei vera meira en sem nemur helmingi af kostnaði vegna hverrar einstakrar framkvæmdar.

Heimilt er að verja allt að 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhaldsframkvæmda, sem ekki falla undir rekstrarviðhald í skilningi fjárlaga, á þeim heimilum fatlaðra og þjónustustofnunum fatlaðra sem byggðar eða keyptar hafa verið og falla innan gildissviðs þessara laga.

Auk verkefna skv. 1.--6. tölul. er Framkvæmdasjóði fatlaðra heimilt að veita fé til annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru taldar í þágu fatlaðra, svo sem breytinga á almennum vinnustöðum þar sem fatlaðir starfa. Enn fremur er sjóðnum heimilt að veita fé til kannana og áætlana í málefnum fatlaðra.

Þetta eru sem sagt verkefnin sem sjóðurinn á að fjármagna og er nánar tíundað í lögunum þar sem vísað er til hæfingar- og endurhæfingarstöðva, dagvistarstofnana, verndaðra vinnustaða, þjónustumiðstöðva, sambýla, vistheimila, heimila fyrir börn o.s.frv.

Með þessu frv. ætlar ríkisstjórnin að skerða framlag til sjóðs sem á að sinna þessum verkefnum. Ráðgert er að skerða framlagið um 345 milljónir á þessu ári. En eins og fram hefur komið í umræðunni hefur framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra verið skert um 700 milljónir á síðustu tveimur árum. Einnig hefur komið fram að frá því að síðasta kjörtímabil gekk í garð hefur framlagið verið skert um 1,2 milljarða kr. Það hefur líka verið upplýst að á biðlistum um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk eru tæplega 400 manns, 378 manns. Einnig hefur verið upplýst að til að sinna þeirri þörf og leysa úr þeim vanda sem þessar biðraðir skapa þyrfti rúman milljarð eða u.þ.b. það fjármagn sem tekið hefur verið af þessum sjóði frá því um miðjan áratuginn.

Ég verð að segja, herra forseti, að í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram um fjárlögin og þá peninga sem til eru í hirslum ríkissjóðs finnst mér harla undarleg forgangsröðun að skerða framlag til fatlaðra um þessa upphæð. Nær hefði verið að bæta í og leysa þann vanda sem fólk býr við að þessu leyti.

Einnig hefur verið sagt að á krepputímum væri skiljanlegt að draga saman seglin. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála því. Ég er ekkert alveg viss um ég sé sammála því að draga saman við þennan hluta þjóðfélagsins á krepputímum. Þvert á móti bendir margt til þess að einmitt þá eigi að huga að þeim sem hafa minnstar tekjur og versta aðstöðu.

Herra forseti. Ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég mótmæli því mjög harðlega að framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sé skert og vek á því athygli að þetta er ekki í fyrsta sinn sem það er að gerast. Það hefur verið gert ítrekað á undanförnum árum þannig að skerðingin nemur nú um 1.200 millj. kr. frá því um miðjan þennan áratug.

Ég vil að lokum nefna að nánast á öllum þingum þar sem fatlaðir koma saman eða þar sem hagsmunamál þeirra eru rædd er þessum niðurskurði til Framkvæmdasjóðs fatlaðra mótmælt harðlega. Nú síðast var það gert á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar sem haldið var um miðjan októbermánuð. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt frv. til fjárlaga árið 2000 fær Framkvæmdasjóður fatlaðra aðeins 40% af mörkuðum tekjum sínum eða 235 milljónir af þeim 575 milljónum sem erfðafjárskattur skilar. Í frv. til fjárlaga er þess getið að farið skuli að tillögum nefndar um biðlista fyrir búsetu og aðra þjónustu sem í áttu sæti m.a. þrír alþingismenn. Útilokað er að sjá hvernig mögulegt er að koma upp þeim búsetu- og þjónustuúrræðum sem reiknað er með í frv. öðruvísi en sjóðurinn haldi að fullu tekjum sínum. Athyglisvert er að sjá að enginn annar markaður tekjustofn fær viðlíka niðurskurð og Framkvæmdasjóður fatlaðra. Þroskahjálp skorar á alþingismenn að hækka framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra þannig að mögulegt sé að koma upp því húsnæði sem rekstur er fyrir á fjárlögum.``

Undir þessi sjónarmið Þroskahjálpar tek ég eindregið og mótmæli áformum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.