Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:37:35 (2969)

1999-12-15 14:37:35# 125. lþ. 46.7 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að gera mér viðvart um að þetta mál er nú skyndilega komið til dagskrár.

Ég ætlaði ekki að tefja þessa umræðu heldur ræða örlítið um þetta tiltekna mál. Hér er lagt til að þær tekjur sem ríkið hefur af brunavarnagjaldi umfram 87 millj. kr. eigi að renna í ríkissjóð. Samkvæmt því sem kemur fram í fskj. er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af gjaldinu séu 13 millj. kr., 2 millj. umfram það sem áður var. Af þessu má draga þá ályktun, herra forseti, að ekki sé mikil þörf fyrir peninga í þessum tiltekna geira og það kann vel að vera.

Það sem mig hefur langað til að ræða í tengslum við þetta er ákveðið mál sem hefur komið upp á árinu reyndar tvisvar sinnum. Það varðar brunavarnir í jarðgöngum. Við höfum á síðustu árum búið til nokkur verulega stór jarðgöng á Íslandi. Það hefur komið fram, herra forseti, í umræðum m.a. af hálfu Brunamálastofnunar og starfsmanna sem vinna við brunaeftirlit að þeir telja að pottur sé brotinn í þessum efnum. Ég vek sérstaka athygli á því að þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð var deginum áður mikil brunvarnaræfing sem leiddi til þess að þeir starfsmenn sem um hana sýsluðu af hálfu Brunamálastofnunar töldu að betur þyrfti að búa út slökkvilið beggja vegna ganganna til að geta tekið til höndum ef um bruna yrði að ræða. Í þeirri umræðu kom einnig fram að sama gildir um önnur jarðgöng hér á landi.

Hæstv. umhvrh. sem fer með málaflokkinn sagði, að mig minnir á miðju sumri, að innan ráðuneytisins væru menn að vinna að því að skipuleggja bættar varnir. Ég man sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra nefndi bættar reglur. Ég er viss um að hæstv. ráðherra hefur ekki setið aðgerðalaus í þessum viðkvæma málaflokki. Ég er viss um að hæstv. ráðherra er búinn að láta setja þessar reglur eða hefur þær a.m.k. í undirbúningi. Ég geri ráð fyrir því að einhvers konar kostnaður fylgi því að geta fylgt þeim eftir.

Ég rifja það upp að slökkviliðsstjórinn í Reykjavík lét þess getið í fjölmiðlum, og var ekkert að skafa utan af því, að festa þyrfti kaup á ákveðnum tækjabúnaði til að hægt væri að segja að göngin væru sæmilega varin, herra forseti. Þessi umræða spratt í tengslum við skelfileg slys sem hafa orðið við svipaðar aðstæður í Sviss og reyndar víðar í Evrópu á síðustu þremur árum.

Mig langar í tilefni af frv. sem hér liggur fyrir að spyrja hæstv. umhvrh.: Hvað líður þessum reglum? Liggur fyrir kostnaðaráætlun sem tengist framkvæmd þeirra? Liggur fyrir af hálfu Brunamálastofnunar eða hæstv. ráðherra áætlun um hvað það kostar að kaupa þann búnað sem þarf til að tryggja öryggi í öllum jarðgöngum á Íslandi?

Tilefnið er auðvitað þetta frv. Ég held að hér sé um að ræða ákaflega brýnt mál og er viss um að það kostar svolítið af peningum. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þeim væri ekki vel varið, þeim 13 millj. sem verið er að tala um að renni í ríkissjóð af brunvarnagjaldi, til að sinna þessum verkefnum, ef hæstv. ráðherra er þá ekki búinn að ganga frá málinu með viðunandi hætti.