Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:41:49 (2970)

1999-12-15 14:41:49# 125. lþ. 46.7 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Við erum einungis að ræða það ákvæði sem hér liggur til umfjöllunar, þ.e. að lækka tekjur til Brunamálastofnunar um 13 millj. kr. Ég er ekki undirbúin fyrir umræðu um brunavarnir í jarðgöngum almennt. Varðandi ummælin sem hv. þm. er að vitna í þá býst ég við að hann eigi við endurskoðun laga um brunvarnir og brunamál. Ég býst við því.

Þau lög hafa verið í endurskoðun í sérstakri nefnd og verið er að vinna hana til enda núna þannig að bráðlega mun koma til þings til dreifingar nýtt frv. um brunavarnir og brunamál.

Varðandi tækjabúnað slökkviliða er mér ekki kunnugt um neina sérstaka áætlun. Þær eru ekki sendar inn til ráðuneytisins að því er ég best veit, enda eru þau mál á hendi sveitarfélaganna. Ég vil ítreka það sem fram kom í fyrri ræðum mínum, að sveitarfélögin sjá um brunavarnir á sínum svæðum. Hins vegar hefur Brunamálastofnun gert úttektir og það er rétt sem hér kom fram í umræðunni fyrr í dag að skólarnir komu tiltölulega illa út. Við könnuðum það sérstaklega í ráðuneytinu, hringdum í þá skóla sem komu illa út og í þau sveitarfélög. Þar er verið að grípa til aðgerða.