Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:47:13 (2973)

1999-12-15 14:47:13# 125. lþ. 46.7 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Rétt er hjá hæstv. ráðherra að við erum, eins og hún orðaði það, einungis að ræða skerðingu á tilteknum tekjustofni. Hins vegar heitir tekjustofninn brunavarnagjald. Ég er að ræða um brunavarnir. Ég er að draga fram að af hálfu ráðuneytisins, sem hæstv. ráðherra veitir forstöðu, hefur komið fram að nauðsynlegt sé að setja skýrari reglur en í gildi eru. Það hefur komið ótvírætt fram hjá brunamálastjóra og yfirmönnum slökkviliðsins í Reykjavík að tækjabúnaðinum er áfátt.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þessu gjaldi er ætlað að renna til Brunamálastofnunar sem ekki fer með slökkviliðsbúnað. Spurning mín hefði þess vegna e.t.v. átt að vera eftirfarandi: Teldi ráðherrann ekki æskilegt, miðað við þessa stöðu, að þessir peningar --- ef þeir renna í ríkissjóð eins og hér er lagt til --- yrðu eyrnamerktir til að standa straum af kaupum á nauðsynlegum búnaði?

En það blasir hins vegar við, herra forseti, eftir þessa umræðu að hæstv. ráðherra hefur ekki sett sig inn í þetta mál. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það. Verra þykir mér að hæstv. ráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því að þörf er á svona reglum. Verst þykir mér þó, herra forseti, að hæstv. ráðherra virðist algjörlega hafa misst af þeirri umræðu sem varð reyndar tvívegis um þetta mál og náði m.a. á forsíður dagblaða. Þá kom skýrt fram af hálfu yfirmanna slökkviliðsins í Reykjavík að þeir voru ákaflega óánægðir með málabúnaðinn af hálfu yfirvalda og töldu brýnt að bæta tækjabúnað slökkviliðsins til þess að mæta áföllum sem kynnu að verða vegna bruna í jarðgöngum.

Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. ráðherra muni í framhaldi af þessu skoða málið í ráðuneyti sínu og e.t.v. geta við annað tækifæri og af öðru tilefni, sem væntanlega kemur upp, upplýst þingið um þetta.