Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 14:49:26 (2974)

1999-12-15 14:49:26# 125. lþ. 46.7 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil ítreka mótmæli mín gegn niðurskurði á framlagi hins opinbera til brunavarna í landinu. Ég tek heils hugar undir ábendingar hv. þm. Þuríðar Backman um afleiðingar þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á rafmagnseftirlitinu í landinu og sannarlega hafa leitt til þess að öryggismál á því sviði eru nú lakari en þau voru fyrir fáeinum árum. Sú breyting var gerð, eins og menn rekur eflaust minni til, að í stað þess að starfsmenn rafmagnsveitna og Rafmagnseftirlitsins sinntu eftirlitsmálum þá var brugðið á það ráð að búa til staðla á vegum Löggildingarstofu og fela síðan einstökum skoðunarstofum að gera úrtak hjá nýjum sem gömlum veitum.

Þetta hefur ekki gefið góða raun og hefur verið mjög harðlega gagnrýnt t.d. af hálfu Bændasamtakanna. Formaður Bændasamtakanna hefur harðlega gagnrýnt þetta og lýst miklum áhyggjum yfir rafmagnsöryggismálum til sveita og einnig hafa komið fram mótmæli af hálfu rafverktaka og annarra sem hafa kynnt sér þessi mál.

Gerð var úttekt á þessum málum á vegum iðnrn. í sumar og í haust var skýrslan birt. Klofningur kom fram í nefndinni og mjög hörð gagnrýni kom frá minni hluta nefndarinnar en meiri hlutinn taldi að þetta mundi lagast þegar fram liðu stundir. Það er ekki nóg með að öryggið sé minna, að dregið hafi verið úr örygginu, heldur er þetta miklu dýrara að auki auk þess sem þetta er byggðafjandsamlegt. Skoðunarstofurnar sem sinna eftirlitinu eru allar staðsettar í Reykjavík. Allar segi ég, þær eru nú ekkert mjög margar. Þær hafa verið tvær til þrjár á undanförnum missirum og senda menn út um landið til að sinna þessu eftirliti og það er mjög bágborið, það er mjög slæmt.

Á sama tíma kemur ríkisstjórnin núna fram með frv. um að skerða framlag til brunavarna. Ég hef áður gert grein fyrir viðhorfum mínum til þessa frv. og ítreka þau hér með.