Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 15:36:59 (2982)

1999-12-15 15:36:59# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er kominn jólabragur á hv. formann fjárln. og hann er fullur þakklætis. Það er ég líka. Ég vil þó aðeins koma hér upp til að gera örlitlar aðfinnslur við ræðu hv. þm. Hv. þm. vísaði því á bug að það hefðu verið lausatök af hálfu ríkisstjórnarinnar á fjármálunum. Mér fannst raunar að hv. þm. væri að vísa því frá fyrir hönd meiri hluta fjárln. Hinu getur hv. þm. varla neitað að alvarleg lausatök hafa verið á ríkisfjármálunum eins og fram kom í rannsókn nefndarinnar á stöðu ríkisfjármála.

Ég vek athygli hv. þm. á greinargerð Ríkisendurskoðunar sem var til mikillar umræðu í nefndinni og í þessum sal í kjölfarið. Þar kom fram að alvarleg lausatök höfðu verið á fjármálum ríkisins, herra forseti. Þar var upplýst að hæstv. heilbrrh. vissi í maí að yfir 100 stofnanir voru að keyra verulega fram úr fjárlögum. Það kom líka fram af hálfu hæstv. heilbrrh. þegar við ræddum við hana í nefndinni að hún hafði látið hæstv. fjmrh. vita af þessu.

Hvað gerðist, herra forseti? Það gerðist nákvæmlega ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða hvorki af hálfu heilbrrh. né fjmrh. Það, herra forseti, kalla ég kæruleysi sem stappar nærri stjórnleysi. Það, herra forseti, er varla hægt að kalla annað en lausatök. Ef hæstv. ráðherrar hefðu gripið til aðgerða sem hefðu hrifið, þá gæti ég fallist á að í þessum tiltekna málaflokki væri hvorki hægt að tala um stjórnleysi né lausatök.

En staðreyndin var allt önnur, herra forseti. Það var ekki brugðist við vandanum. Þess vegna get ég ekki annað en spurt hv. þm. hvort honum finnst það of í lagt að kalla það lausatök þegar menn standa andspænis slíku aðgerðaleysi.