Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 15:40:52 (2984)

1999-12-15 15:40:52# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. formanni fjárln. þykir sem ég hafi misst nokkra daga úr. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hv. formaður fjárln. hefði átt að koma hingað og spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. hvort þau hefðu misst heilt ár úr. Varðandi þann tiltekna vanda sem ég og hv. þm. Jón Kristjánsson vorum að ræða, þá var ekkert gert á heilu ári. Og að því leyti má halda því fram að þar hafi heilt ár tapast.

Ég held, herra forseti, að hv. þm. geti ekki einskorðað þá umræðu um lausatökin, sem hann hóf sjálfur, endilega við það tiltekna fjárlagafrv. sem við erum að ræða hér heldur verði hann að horfa á eftirlit og framkvæmd fjárlaganna. Þau voru líka samþykkt á síðasta ári og okkur í stjórnarandstöðunni þykir sem talsverð mistök hafi orðið við að fylgja þeim eftir.

Vegna þess að hv. þm. vék að stöðu ríkisfjármála þá nefni ég að á þessu ári er það ekki einungis í heilbrigðismálunum sem lausatökin birtast. Þau birtast líka í húsnæðismálunum þar sem fram kemur að búið er að gefa út húsbréf fyrir 8 milljarða umfram það sem fjárlög heimiluðu á þessu ári. Það eru auðvitað lausatök, herra forseti, þegar slíkt gerist án eftirlits og án þess að gripið sé í taumana. Þetta er ástæðan fyrir því að við stöndum frammi fyrir ákveðnum váboðum í efnahagslífinu.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að það er sannarlega fagnaðarefni að mikill afgangur er á ríkissjóði. En af hverju stafar hann, herra forseti? Hann stafar ekki af því að okkur hafi tekist svo vel að stemma stigu við útgjöldum heldur stafar hann af vaxandi viðskiptahalla, það er skýringin.

Hv. þm. talaði líka um nauðsyn þess að draga úr peningamagni í umferð og ég er honum sammála um það. Við erum ekkert ósammála um hvað séu í raun helstu orsakir þeirrar hættu sem segja má að steðji að. En ég vek athygli á því að það var hann og hæstv. fjmrh. sem juku peningamagn í umferð á síðasta ári með margvíslegum aðgerðum. (Forseti hringir.) Ég get rætt þetta síðar á þessum ágæta degi, herra forseti.