Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 15:43:08 (2985)

1999-12-15 15:43:08# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé svo sannarlega ástæðu til að fagna því að hv. 7. þm. Reykv. kemur fram sem hið ábyrga andlit Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum. Ég tel ástæðu til að fagna því að hann telur að halda þurfi utan um ríkisfjármunina og að reka þurfi ríkissjóð með afgangi. Ég tel að við séum sammála hvað þetta snertir og ég horfi með ánægju til þess.

Hvað varðar aukin útgjöld til heilbrigðismála og húsnæðismála þá snýst það mál hins vegar um hvort við ætlum að halda óbreyttu þjónustustigi í heilbrigðiskerfinu í öllum megindráttum. Það snýst líka um hvort við ætlum að stöðva húsbyggingar í landinu. Ég tel að greiðslumatið þurfi endurskoðunar við eins og við höfum rætt í fjárln. Hins vegar tel ég að allar stökkbreytingar í þessum efnum séu óheppilegar. Ég tel að við höfum þar verk að vinna við að skoða þau mál áfram eins og fram hefur komið í vinnu nefndarinnar.