Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 15:44:43 (2986)

1999-12-15 15:44:43# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni og formanni fjárln. kom fram að minni hlutinn hefði ekki lagt fram neinar tillögur hvorki til aukinnar tekjuöflunar né til að draga úr þenslu. Af því tilefni vil ég geta þess að það er rangt hjá hv. þm. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum fram tillögu um tekjuöflun hjá þeim sem meira mega sín. Á hátekjufólk og fyrirtæki sem eru fyllilega aflögufær væru lagðir á viðbótarskattar, liðlega 2 milljarðar kr. sem ættu að draga úr neyslu en líka útvega tekjur til jöfnunar í þjóðfélaginu. Sá ójöfnuður sem er eykur þensluáhrifin og það lögðum við áherslu á.

Við lögðum líka áherslu á, herra forseti, á millifærslur. Við lögðum til að þetta Schengen-samstarf yrði skorið af, ástæðulaust væri að eyða peningum í það. Í fyrsta lagi teljum við það andstætt hagsmunum eyþjóðar og ætti þess vegna að skera það af. Auk þess teljum við ástæðulaust að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir milljarða kr. til að flokka farþega inn í landið eftir uppruna eða búsetu. Við lögðum því til margar tilfærslur auk þess að færa til þeirra sem minna mega sín og rétta hlut manna á landsbyggðinni.

Ég vildi aðeins leiðrétta hv. þm.