Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:07:34 (2991)

1999-12-15 16:07:34# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsögu hv. þm. hafa ýmsir aðilar orðið til þess að benda á að ýmsar blikur séu á lofti í íslenskum efnahagsmálum, bæði OECD, Alþjóðabankinn, Þjóðhagsstofnun, Seðlabankinn, Hagfræðistofnun Háskólans o.s.frv.

Ég vil að það komi skýrt fram hér að auðvitað deilum við líka þessum áhyggjum, það liggur alveg fyrir. Í haust voru gerðar ráðstafanir af hálfu Seðlabankans til að reyna að draga úr innflutningi og minnka þenslu. Það liggur núna fyrir að þær ráðstafanir dugðu ekki. Innflutningurinn er meiri en gert var ráð fyrir þá. Það eykur tekjur ríkisins núna, gerir afkomu ríkisins í ár betri en það eru vondar fréttir til lengri tíma litið.

Þess vegna liggur það fyrir að grípa verður til ráðstafana til að reyna að sporna gegn þessum aukna innflutningi og til að sporna gegn þeirri þenslu sem sannarlega er allt of mikil. Það er ýmislegt sem kemur þar til greina, bæði um stjórn peningamála og annað slíkt. Við verðum að vona að við berum gæfu til þess að draga úr hinum mikla innflutningi sem sannarlega er merki um að efnahagslífið getur ofhitnað. Það er einbeittur vilji stjórnarinnar og stjórnarsinna allra að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda því jafnvægi sem hefur verið þjóðfélaginu svo dýrmætt og skilað okkur miklum árangri.