Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:25:59 (2995)

1999-12-15 16:25:59# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við fjárlög íslenska ríkisins við lokaumræðu við aldahvörf. Það er svo sem margt búið að segja í aðdraganda máls, bæði við fyrri umræðu við fjárlagafrv. og ekki síður við umræður um fjáraukalög sem gerð voru að lögum í dag. En auðvitað er það svo, herra forseti, að skylt er skeggið hökunni og fjáraukalögin eru sumpart upptaktur eða undanfari og vísbending um það hvernig vænta má þess að hlutir gangi eftir hvað varðar þá áætlanagerð sem fjárlög eru.

Og því miður er það þannig, herra forseti, að reynsla yfirstandandi árs, nú hálfum mánuði fyrir aldamót, gerir það að verkum að ýmsar efasemdir vakna í brjósti við lestur fjárlagafrv. og þau áform sem uppi eru af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Ég sagði í gær að mér þætti stjórnarliðar úr báðum stjórnarflokkum, Sjálfstfl. og Framsfl., vera óvenju hógværir í allri framsetningu á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar þegar fyrstu fjárlög nýendurgerðrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar renna í garð. Ég átti satt að segja von á því að eftir langvarandi góðæriskafla Íslandssögunnar væru stjórnarliðar öllu brattari og að við þyrftum ekki að heyra ræður á borð við þær sem fluttar voru áðan af hálfu varaformanns nefndarinnar, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem er eins og venjulega ærlegur og kemur beint framan að þeim viðfangsefnum sem taka þarf á. En hann sagði efnislega, herra forseti, eftir ræðu talsmanns Samfylkingarinnar í þessari umræðu, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, að hann tæki í einu og öllu undir þær áhyggjur sem eru raktar í minnihlutaáliti Samfylkingarinnar í fjárln. Hann tæki undir allar þær ábendingar og alla þá varúð sem gætti í því áliti.

Hann sagði einfaldlega og tók undir það sem við höfðum sagt að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefði gripið til til að draga úr þenslu --- þenslu sem stjórnarflokkarnir hafa að miklu leyti sjálfir búið til með óvarlegum yfirlýsingum forsvarsmanna hennar gagnvart almenningi í landinu. Og eftir höfðinu dansa limirnir og eftir þessum ábendingum hefur niðurstaðan orðið á þann hátt sem raun ber vitni. Hann sagði að ráðstafanir sem ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn á hinu háa Alþingi hefði gripið til til að draga úr þenslu og eftirspurn eftir fjármagni hefðu ekki dugað, enda er nú tæpast hægt að neita staðreyndum því að þjóðhagsspá gaf það klárt og kvitt til kynna í gær að viðskiptahallinn væri mikill, sem hefur verið viðvarandi vandamál og talsmenn Samfylkingarinnar í kosningunum sl. vor hömruðu einatt á að væri tifandi tímasprengja. Hæstv. fjmrh. sagði þá að því vandamáli væri ofgert og vandamálið væri ekki eins stórt í sniðum og við héldum fram.

[16:30]

Allt annað hefur komið á daginn. Viðvörunarorð okkar hafa reynst rétt. Viðskiptahallinn er nú í 38 milljörðum kr. Það er rétt að undirstrika það sem fram kom í umræðunni í gær og hæstv. fjmrh. staðfesti í þessum ræðustól fyrir um sólarhring, að nú er svo komið að ríkissjóður, vegna viðvarandi viðskiptahalla, getur ekki lengur greitt niður erlend lán. Af hverju getur hann það ekki? Vegna þess að það vantar gjaldeyri. Það má ekki lengur ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn og reyna þolrifin á honum því að þá væri gengi íslensku krónunnar ógnað mjög verulega.

Þá segja menn: Er ekki hægt að ráðast í að greiða niður innlendu lánin og ná þannig meginmarkmiði íslensku ríkisstjórnarinnar, að ná niður þeim þeim lánum sem hvíla á ríkissjóði og íslensku þjóðinni? Nei, það er ekki heldur hægt. Þannig færi meira fjármagn í umferð og það væri auðvitað olía á eldinn, á eld eftirspurnar eftir fjármagni. Það mundi auka neysluna og þar með þenslu. Við erum því komin í vítahring. Hér er ekki eingöngu pólitísk sjálfhelda heldur efnahagsleg sjálfhelda, pattstaða. Og það er satt að segja raunalegt, herra forseti, að horfa upp á slíka pattstöðu verða til af manna völdum, vegna aðgerða eða aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar í lok mesta góðæris Íslandssögunnar.

Undir þeim formerkjum hlýtur maður að skoða áform ríkisstjórnarinnar við 3. umr. fjárlaga fyrir komandi ár. Í þessum efnum kveður þar við sama bjartsýnistóninn. Áformað er að greiða niður langtímalán að fjárhæð 27,5 milljarða kr. Vissulega hljómaði þetta allt býsna vel ef ekki væri það sem ég nefndi hér áðan. Því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra og hv. þm. Jón Kristjánsson hvað geri það að verkum að þeir reikna með því að áform um niðurgreiðslu langtímalána, erlendra lána sem og innlendra, gangi fremur fram á komandi ári í ljósi áframhaldandi viðskiptahalla upp á 38 milljarða kr. eins og þjóðhagsspá spáir fyrir um. Hvers vegna ætti að verða auðveldara um vik að greiða niður innlendu lánin á næsta ári en á því sem nú er að líða í ljósi þess sem ég rakti hér áðan? Þetta er auðvitað verulegt áhyggjuefni.

Ég minni á að síðast í dag var höfuð þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., að guma af því í fjölmiðlum að þetta væri helsta meginverkefni ríkisstjórnarinnar, að ná niður þessum skuldbindingum, þessum klyfjum af íslenska þjóðarbúinu sem skuldirnar eru. Auðvitað er það þannig á íslenskum heimilum þegar auknir peningar renna inn í heimilisbókhaldið að þá reyna heimilisfeður og mæður að grípa til þess ráðs að losa sig við áhvílandi skuldir á heimilinu, hvort sem það eru fasteignaskuldir eða aðrar. Vissulega eru allir um það sammála hér í þessum sal að það eigi íslenska ríkið að gera líka, ekki síst þegar loksins eru peningar til ráðstöfunar. Því er það raunalegt að búið sé að koma málum í þann gordíonshnút sem raun ber vitni.

Ég spyr eftir því, herra forseti, hvar í þessu fjárlagafrv. sé að sjá þau lausnarráð. Að vísu hygg ég að það þjóni ekki nokkrum tilgangi að kalla eftir einu eða neinu hér í salnum, það er enginn stjórnarliði í honum. Ég bíð eftir því ... (Gripið fram í: Það er einn stjórnarliði í salnum.) Það er einn stjórnarliði í salnum, hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. og kemur hv. þm. Jón Kristjánsson aftur til skjalanna.

Ég var að óska eftir því, herra forseti, að mér yrði bent á það hvar í þessu fjárlagafrv. þau lausnarráð væru sem dygðu til að koma okkur út úr vítahringnum, þessari pattstöðu sem hamlar því að hægt sé að nýta fjármagnið sem afgangs er til að losna við skuldaklyfjarnar. Mér þætti fróðlegt að sjá þau úrræði. Ég finn þau ekki hér í frv. Ég tel mjög mikilvægt að halda þessu til haga, ekki eingöngu vegna fjáraukalaganna, heldur ekki síður vegna þess sem fram undan er.

Ég bendi á, herra forseti, að í þessu efnahagsumhverfi þegar boltinn er farinn að rúlla í íslensku samfélagi --- það þekkjum við frá fyrri tíð --- og verðbólguhugsunarhátturinn fer að ná tökum á íslenskri þjóðarsál þá er skammt til glötunar. Ég hef af því áhyggjur ef hér festist í sessi verðbólgustig upp á 4--6% ár eftir ár. Verðbólgan hefur í ár verið rétt undir 6% eða 5,6%. Í forsendum fjárlagafrv. er miðað við 4,5%. Í forsendum frv. sem samþykkt var fyrir ári síðan var hún áætluð 3% en reyndist vera nær 6%. Með sömu reikningskúnstum má ætla að niðurstaðan verði kringum 7% á næsta ári ef menn nota sama framreiknistuðul.

Ég bið guð að hjálpa okkur, herra forseti, ef verðbólgan hér nær 7% með þeim margfeldiáhrifum sem slíkt hefur í för með sér. Þetta er ég ekki að segja, herra forseti, til að koma einhverjum skeytum á stjórnarliða eða ríkisstjórnina. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að ég hef af því verulegar áhyggjur. Ég held að það hljóti að vera þannig að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn deili þessum áhyggjum með mér og stjórnarandstæðingum, af því hvert stefnir. Það er nefnilega meira en að segja það --- það þekkja þeir sem eru eldri en tvævetur í þessum sal --- að ná niður verðbólguskrúfunni þegar hún er komin í gang á annað borð. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að menn skyldu ekki reyna betur í þessu fjárlagafrv. að hægja á neyslunni og þeirri þenslu sem óhjákvæmilega er til staðar í íslensku þjóðarbúi.

Menn segja að þetta sé nú allt tóm vitleysa því að vissulega skili ríkissjóður 15 milljarða kr. afgangi. Jú, það gerir hann, gott og vel og allt gott um það að segja. Það er fagnaðarefni. Ég held hins vegar að það hefði verið metnaðarfyllra markmið og hefði kannski skipt einhverju máli, sálrænt og þráðbeint í hina íslensku þjóðarsál, ef sá afgangur hefði verið helmingi meiri eða þrisvar sinnum meiri. Það er auðvitað alveg ljóst að peningarnir renna inn í ríkissjóð í stríðum straumi en því miður renna þeir út úr honum aftur jafnhratt, ef ekki hraðar. Ég hef leitað með logandi ljósi að því í þessu fjárlagafrv. frá því að það kom til 1. umr. fram að 2. og 3. umr., hvar væri að finna viðleitni til sparnaðar, hagræðingar og kerfisbreytinga sem hægðu á þessari sjálfvirkni eða stöðvuðu hana jafnvel. Við vitum auðvitað og það hafa allir flokkar þurft að glíma við að hin föstu gjöld í ríkisrekstri eru laun og almenn rekstrargjöld sem mörg eru þannig að erfitt er að hemja þau. En ég hefði gjarnan viljað sjá, í almennum hugleiðingum og tillögugerð, fleiri tillögur frá þingmeirihlutanum þar sem menn tækjust á við þetta vandamál.

Menn hafa ekki rætt heilbrigðismálin til fulls og út af fyrir sig er það ekki undarlegt. Þar hefur verið vakin athygli á því að í fjáraukalögum var komið til móts við fjölmargar ef ekki flestar heilbrigðisstofnanir sem búið höfðu við viðvarandi rekstrarhalla á öllu þessu ári. Einnig er látið í veðri vaka, sem kann að vera satt að hluta til, að þörfum þeirra sé mætt betur á næsta ári en oft áður og það er fagnaðarefni. Ég er hins vegar ekkert viss um það. Raunar tel ég langt í frá að öll kurl séu komin til grafar í þeim efnum. Því miður held ég að í þessu fjárlagafrv. sé ávísað á áframhaldandi hallarekstur fjölmargra heilbrigðisstofnana á landinu. Það er m.a. vegna þess að kjarasamningum er ekki lokið inni á sjúkrastofnunum, þar eru eftir hópar sem sækja munu svipaðar kjarabætur og greiddar hafa verið til stétta á borð við hjúkrunarfræðinga og lækna. Þar er auðvitað þörf sem eftir á að koma til móts við og er að litlu leyti gert ráð fyrir í þessu fjárlagafrv.

Í þessu samhengi get ég þó kannski nefnt einu tilraunina sem hægt er að finna til að hægja á sjálfvirkninni í ríkiskerfinu. Hún tengist einmitt heilbrigðismálum og á hana var drepið að örlitlu leyti áðan, meira þó við 2. umr. Menn deildu um hverjum væri um að kenna þessi gífurlegu umframkostnaður við rekstur sjúkrastofnana. Í kjölfarið fór í gang mikil vinna að ég hygg, í fjmrn. annars vegar og væntanlega heilbrrn. hins vegar, sem átti að skila sér í tillögum meiri hluta fjárln. við lok umræðunnar, um tilteknar verklagsreglur sem áttu að taka á því þegar forstöðumenn einstakra stofnana stæðu ekki við gildandi lög og keyrðu fram úr gildandi fjárlögum. Þá höfðu menn uppi með stór orð og ýmsar hugmyndir um að þá ætti að áminna og síðan hausskera ef þeir tækju ekki tilmælum.

En, herra forseti, þá væri auðvitað verið að hengja bakara fyrir smið. Ég hitti fyrir skömmu forstjóra sjúkrastofnunar og sá hinn sami hafði hlýtt á þessa umræðu og undrast eilítið í ljósi þess að í fjölmörgum sjúkrastofnunum víða um land --- nú væri fróðlegt fyrir hæstv. heilbrrh. að heyra þetta en ég ætla svo sem ekkert að kalla eftir henni sérstaklega --- hafa verið tilnefndir tilsjónarmenn svokallaðir. Þeir hafa í raun öll ráð í hendi sér og forstjórar viðkomandi stofnunar mega ekki skrifa undir nokkurn skapaðan hlut eða skuldbinda stofnunina án þess að spyrja viðkomandi tilsjónarmann sem síðan er beintengdur, annars vegar við heilbrrn. og hins vegar fjmrn. Ekki nóg með það, heldur hafa einstakir starfsmenn heilbrrn. og sumpart fjmrn. verið með fingurna í smæstu þáttum í rekstri þessara sjúkrastofnana.

Því spyr ég: Hvar ætla menn að hætta að taka hausa? Eiga viðkomandi tilsjónarmenn að fjúka líka, sem eru yfirleitt lausráðnir verktakamenn? Eiga embættismenn viðkomandi ráðuneyta sem hafa skipað fyrir um gang mála líka að fjúka? Á það sama að gilda um ráðherrana? Hvar ætla menn að hætta að setja menn í hengingaról? Sannleikurinn er auðvitað sá, herra forseti, og því verður ekki á móti mælt, að mér finnst leggjast ákaflega lítið fyrir kappann, hæstv. fjmrh. að halda því fram við síðari umræðu þessa máls að einhverjir menn úti í bæ hafi gert það að verkum að svo fór sem fór á yfirstandandi fjárlagaári og taka þurfi þessa menn úti í bæ til bæna. Það liggur fyrir að 70% af útgjöldum heilbrigðisstofnana eru laun og hver samdi um þessi laun nema þessi sami hæstv. fjmrh.?

Herra forseti. Hótanir eru ekki leið að settu marki. Svona hótanir og þvingunaraðgerðir passa ekki. Þvert á móti held ég að vandinn hefði verið sá að illa hefur gengið að laða forsvarsmenn og stjórnir þessara sjúkrastofnana til nauðsynlegs samstarfs við viðkomandi ráðuneyti, einkum og sér í lagi heilbrrn. en sumpart þó líka fjmrn. Auðvitað hefur launaliðurinn fyrst og síðast gert það að verkum að menn eru í þessum stóra vanda í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Ég spyr hvort það sé von á verklagsreglum þar sem forstöðumenn og fyrirsvarsmenn einstakra sjúkrastofnana yrðu kjöldregnir ef þeir standa ekki við fjárlögin, keyra fram úr, eða hvort menn hafi sett þau áform á hilluna. Ég kalla eftir því.

Eitt get ég ekki látið fram hjá mér fara en forstjórinn yfir langstærstu sjúkrastofnun landsins er fyrrverandi ráðuneytisstjóri í sjálfu fjmrn. og ætti nú væntanlega að kunna á gang mála. Ég veit ekki hvaða skoðanir hann hefur á þessu en þetta undirstrikar enn og aftur að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi sent sinn mann beint úr fjmrn., sem hefur með fjármál ríkisins að segja, til þess að stýra þessu. Niðurstaðan varð samt sem áður sú að Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur, þessar sjúkrastofnanir í Reykjavík sem taka til sín eitthvað innan við 10 milljarða kr., runnu hratt fram úr eins og vel flestar aðrar.

[16:45]

Herra forseti. Þetta einstaka mál geri ég að umtalsefni hér þó kannski hafi það verið rætt talsvert á sínum tíma. Mér virðist að þessi þó litla viðleitni til að draga úr sjálfvirkninni í kerfinu sé andvana fædd. Ég sé ekki að hún leiði til eins eða neins. Mér sýnist af öllu í ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar að þessar verklagsreglur verði ekki kynntar hér og einhver bið verði eftir þeim. Ég geng hins vegar út frá því --- ég verð þá væntanlega leiðréttur hafi ég rangt fyrir mér --- að þær verklagsreglur taki af öll tvímæli hvað varðar réttindi og skyldur. Með öðrum orðum yrði það fyrir atbeina Alþingis að slíkar verklagsreglur, ef settar verða, komi til framkvæmda. Ég býst ekki við að það verði innanhússmál framkvæmdarvaldsins að setja slík viðmið enda girða lög fyrir í þeim efnum að ég hygg.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að halda hér langa ræðu. Ég vil þó í örfáum orðum fara yfir nokkur atriði í lokaspretti meiri hluta fjárln., þ.e. brtt. við 3. umr. Þar er ýmislegt sem vekur athygli.

Í fyrsta lagi vil ég nefna B-hluta stofnun, þ.e. Leifsstöð sem heyrir undir utanrrn. Þar sem gert ráð fyrir aukinni lántökuheimild vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þar er óskað eftir hækkun upp á 1,2 milljarða kr. og að framkvæmdin á næsta ári verði upp á litla 2,4 milljarða kr. Í grg. er sagt að þetta sé í samræmi við breyttar forsendur um umfang stækkunar flugstöðvarinnar, áætlaðan heildarkostnað við verkefnið og skiptingu hans milli ára.

Hér er auðvitað ekki um neina smásmíði að ræða. Ég hef verið því hlynntur að menn ráðist í það mikilvæga verkefni að stækka Leifsstöð, bæði vegna skuldbindinga okkar að Schengen-samningi og eins vegna þess að starfsemin hefur sprengt núverandi flugstöð utan af sér. Út af fyrir sig er ekkert um það að segja. Hins vegar vil ég spyrja þráðbeint hvers vegna sú forskrift breyttist sem lagt var upp með. Ráðgerð stækkun upp á 10.500 fermetra breyttist allt í einu í 13.800 fermetra. Það er veruleg stækkun. Var eitthvað ófyrirséð sem gerði það að verkum að þetta skuli koma í ljós núna við 3. umr.? Ef ég man rétt þá eru það í kringum 600 millj. kr. sem til ráðstöfunar voru vegna Leifsstöðvar á yfirstandandi ári vegna teikninga, útboða, hönnunar, athugana o.s.frv. Dugðu þessar 600 milljónir ekki til þess að menn áttuðu sig á því fyrr en nú á lokasprettinum að þessa fjármuni þurfti til viðbótar?

Í annan stað spyr ég líka, af því ég náði ekki að fletta því upp: Er þetta fé sem hér er lagt til til að flýta framkvæmdinni nauðsynlegt til að hægt sé að uppfylla ákvæði Schengen-samkomulagsins? Var það eitthvað sem við sáum heldur ekki fyrir? Hefur dagsetningum verið breytt í þeim efnum nýverið? Hefur það alveg farið fram hjá mér?

Í framhaldi af þessum tveimur spurningum vil ég einnig spyrja: Hvað kallar í raun á þessa fjármuni til viðbótar í miðri þenslunni, mitt í neyslunni? Ég held að flestir hafi verið sammála um að draga úr framkvæmdum á suðvesturhorninu. Menn stöðvuðu hér framkvæmdir við hliðina á þinghúsinu sem að vísu var umdeilanlegt en nóg um það. Á það sama ekki við suður í Leifsstöð? Ég spyr: Er raunveruleg þörf? Mun allt fara á annan endann, bæði Schengen-samkomulagið og framkvæmdin í heild þótt hægar verði farið í sakir? Þessu vildi ég gjarnan fá svör við. Kannski er það eingöngu á færi hæstv. utanrrh. að svara því en ég held að hann sé ekki viðstaddur þessa umræðu.

Herra forseti. Í þessu samhengi er fróðlegt að lesa brtt. hér á lokasprettinum. Þær segja sumpart býsna margt um áherslur þessarar ríkisstjórnar. Hvar er verið að lækka framlög? Hvar eru mínusarnir í þessum tillögum?

Jú, þeir eru í Lánasjóði ísl. námsmanna. Þeir eru í vaxtabótum. Þá svara menn þessu hefðbundna: Það er nú bara vegna þess að tekjur fólks hafa hækkað svo mikið í góðærinu að fólk er komið upp fyrir þessi viðmið. Þá spyr ég á móti: Er raunverulegur vilji til þess, til að mynda í vaxtabótakerfinu, að styðja húsbyggjendur sem sannarlega þrengir mjög að vegna þess að skuldir heimilanna hafa aukist ógnarlega í þessu mesta góðæri sögunnar? Ég bendi einnig á að eftir höfðinu dansa limirnir. Fólk heima í stofu spyr vitanlega: Af hverju má ég ekki taka lán eins og ríkissjóður? Af hverju má ég ekki verja mínum peningum til neyslu eins og allir aðrir? Þar eru að verki þessi margfeldisáhrif, þessi keðjuverkun.

Ég spyr: Hvað er það sem kemur í veg fyrir það að menn hækki viðmið vaxtabóta og haldi inni þeim fjármunum sem ráð var fyrir gert í upphaflegu frv. en lækki ekki það framlag því að nóg er nú samt? Það kemur satt að segja á óvart að svipuð lækkun skuli ekki sjást á barnabótunum því að þetta viðlag hefur verið sungið allt haustið af hálfu þingmeirihlutans og hæstv. ríkisstjórnar. Þessa tvo þætti dreg ég fram til að sýna að í þenslufrumvarpinu finna menn matarholurnar í því að lækka framlög til lánasjóðsins og lækka framlög til vaxtabóta. Ef þetta segir ekki meira en mörg orð þá veit ég ekki hvað.

Herra forseti. Þetta er auðvitað þenslufrumvarp og ekki um annað að ræða. Menn hafa minnst á það hér að í meðförum fjárln. hafa orðið gífurlegar hækkanir. Ég vil hins vegar leiðrétta mig og minna á að það er ekki við meiri hluta fjárln. einn að sakast. Því miður er það þannig að fjárln. fær fyrirmæli frá ríkisstjórn, það eru gerðar samþykktir í ríkisstjórn um hitt og annað og þingmeirihlutinn verður að una við það. Því er úr vöndu að ráða fyrir meiri hluta fjárln. þegar þannig er í pottinn búið. Við höfum haft góða möguleika á að ná hér umtalsverðum árangri sem við gætum byggt á til lengri tíma. Við hefðum getað náð hér viðspyrnu til þess að bregðast við því sem óhjákvæmilega verður í náinni framtíð eða síðar að þrengja muni að á nýjan leik. En við höfum ekki nýtt þennan tíma vel. Umliðin fjögur, fimm ár hafa ekki verið nýtt vel. Enn á ný er þessi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á sama bruninu. Er á meðan er, þetta bjargast í augnablikinu, skítt með framtíðina.