Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:56:21 (2997)

1999-12-15 16:56:21# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni svör hans. Þau voru ærleg eins og venja er til. Hann staðfesti í einu og öllu það sem ég sagði áðan. Þetta er auðvitað ákaflega þvinguð staða sem ríkissjóður er í hvað viðskiptahallann varðar og afleiðingar þess, þ.e. að gjaldeyrir er af skornum skammti.

Hann sagði að gripið hefði verið til ráðstafana. Vissulega var gripið til ráðstafana en þær hafa ekki dugað. Þvert á móti, eins og fram hefur komið á síðustu þremur mánuðum ársins, hefur spá um niðurstöðutölu upp á 28 milljarða farið í 38 milljarða. Það eru engar smástærðir sem við erum að tala um hér.

Hv. þm. segir að sala banka dragi vonandi eitthvað úr þenslu. Ég hef áhyggjur af því að það geti haft þveröfug áhrif, því miður, og stór hluti þeirra sem kaupa þessi bréf taki þá fjármuni að láni. Hvað þá? Hv. þm. sagði að ein leiðin væri sú sem lagt er til í fjáraukalögum sem samþykkt voru hér í dag um að frysta tiltekinn hluta í Seðlabanka Íslands. Það er ein leið en það er ákaflega þvinguð niðurstaða og þvinguð aðgerð. Þeir peningar munu ekki renta sig á einn eða neinn hátt.

Herra forseti, það er alveg hárrétt sem ... (Fjmrh.: Eru ekki borgaðir vextir?) Hvað sagði hæstv. ráðherra? (Fjmrh.: Það eru borgaðir vextir í Seðlabankanum.) Jú, en þessir peningar renta sig auðvitað ekki í þjóðfélaginu. Kjarni málins er að þessir peningar fara ekki til þess sem til stóð, að greiða niður skuldir innan lands eða utan lands. Það er bara kjarni málsins, hæstv. fjmrh. Ég skil ósköp vel að ráðherrann sé sár og súr með niðurstöðuna. Þetta er veruleiki málsins.

En ég er hér að svara hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Ég skildi hann þannig að þess væri varla að vænta hér á þessu haustþingi að menn tækju af skarið varðandi verklagsreglur og vinnureglur.