Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:58:33 (2998)

1999-12-15 16:58:33# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Um tvennt vildi ég geta í síðara andsvari mínu. Varðandi umræðuna um þensluna þá er 16,7 milljarða kr. afgangur á fjárlögum skilaboð út í þjóðfélagið.

Ég verð að leiðrétta það og mér finnst ómaklegt að segja að fjárln. hafi í vinnu sinni við fjárlagafrv. ausið út fé. Hækkunartillögur fjárln. eru um 3 milljarðar kr. af 190 milljarða kr. útgjöldum. Þetta er í prósentvís innan við það sem verðbólguforsendur fjárlaga eru. Það er því alrangt að hér hafi verið ausið fé í allar áttir eins og manni skilst af ræðum hv. stjórnarandstæðinga. Þessi afgangur af fjárlögum er auðvitað ákveðin skilaboð.

Hv. þm. beindi til mín spurningu um Leifsstöð. Ég hygg að tillögur um Leifsstöð í þessu frv. stafi af því að umferð um stöðina er gífurlega mikil og fer sívaxandi. Það þarf ekkert að lýsa því fyrir hv. þm. sem fara þar stundum í gegn hvers konar örtröð þar er orðin. Það er full þörf á því að ráða þar bót á. Ég held að skilningur hafi verið á því og þess vegna líti þessar tillögur svona út gagnvart þessu fyrirtæki á Suðurnesjum.