Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:00:43 (2999)

1999-12-15 17:00:43# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Einmitt þessi skilaboð til þjóðfélagsins eru lykilatriði. Ég kom mjög rækilega inn á það í ræðu minni. Þau hafa augljóslega ekki virkað. Hér kemur hæstv. fjmrh. með fjárlagafrv. í byrjun október með þjóðhagsspá upp á x. Niðurstaðan á síðustu mánuðum ársins er sú sem ég lýsti áðan. Hér er allt á bullandi ferð og viðskiptahallinn aldrei meiri. Ég hef áhyggjur af því.

Maður spyr sjálfan sig: Eru þau skilaboðin úr þessum sal nú nokkrum dögum fyrir jól eitthvað bitastæðari en á haustdögum? Er einhver ástæða til að þjóðinni finnist þau skýrari en þegar hæstv. ráðherra kom með pappíra sína og bókina sína? Ég hef miklar efasemdir um það og áhyggjur af því. Ég er að koma því á framfæri.

Hvað varðar Leifsstöðina þá hef ég fyrst og síðast uppi varnaðarorð. Það rifjast upp fyrir mér að sömu stjórnmálaflokkar voru í ríkisstjórn 1986 ef ég man rétt og stóðu að byggingu Leifsstöðvarinnar á sínum tíma. Það þurfti mikinn hraða, umsnúning og mikil læti til að ljúka því fyrir kosningarnar 1987. Það fór allt úr böndunum. Þess vegna hringja hjá mér viðvörunarbjöllur þegar ég sé að hraða á framkvæmdinni alveg sérstaklega og þarf flýtifé til að ljúka þessu og hinu fyrir tiltekinn tíma. Þess vegna spurði ég einfaldlega að því hvort Schengen-samningurinn eða eitthvað annað gerði það að verkum að það þetta viðbótarfé þarf til að flýta framkvæmdinni. Það voru áhyggjur mínar fyrst og síðast.

Um framkvæmdina sem slíka held ég að ekki séu stórar deilur, a.m.k. ekki milli Samfylkingar og ríkisstjórnarinnar. Við teljum nauðsyn á þessu vegna þess að stöðin er sem stendur of lítil. Við erum hlynnt Schengen-samkomulaginu og viljum tengjast Evrópu betur en verið hefur.

Að lokum, herra forseti. Fjárln. og meiri hluti hennar hefur gert sitt besta. Ég var að segja hér áðan að frá haustdögum þegar saman eru lögð fjárlögin, 1., 2. og 3. umr. og fjáraukalögin, 1., 2., og 3. umr. þá hefur fé streymt í allar áttir. Því er nú verr og miður.