Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:03:07 (3000)

1999-12-15 17:03:07# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er afskaplega fróðlegt að sitja í hv. fjárln. þar sem ég hef setið frá síðustu kosningum. Það er lærdómsríkt og menn skilja miklu betur en áður gangvirki ríkisfjármálanna og ríkisins. Þegar ég segi það hafa verið lærdómsríkt þá er það ekki síst vegna þess að margir ágætir þingmenn meiri hlutans hafa opnað augu mín fyrir hvers kyns misfellum í rekstri ríkisins. Ég held ég halli ekki á neinn né lofi um of þegar ég segi að sér í lagi hef ég oft hrifist af málflutningi hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Ég tel að hann hafi ákaflega skarpa sýn á ríkisfjármálin, það gangvirki og þau lögmál sem þar eru í gangi. Ég held að að öðrum ólöstuðum hafi ég af engum lært eins mikið síðustu árin og af hv. þm. um hagfræði og efnahagsmál ríkisins.

Eitt af því sem ég hef lært er að maður á að taka mark á þessum hv. þm. Það má eiginlega segja að það hafi verið hann en ekki við í minni hluta fjárln. sem settum punkt aftan við allt okkar starf í sex hundruð sumur þessa árs. Ég fagna því að hann kom upp hér áðan og tók efnislega undir öll þau aðvörunarorð sem við höfum flutt. Við höfum gert það í ræðum okkar og í einum fjórum nál. þar sem við höfum reynt að brjóta til mergjar þá þróun sem í gangi er í ríkisfjármálunum.

Hv. þm. hefur séð ástæðu til þess, til að mynda í umræðum um fjáraukalög, að lýsa því yfir að hann væri sammála greiningu okkar á hinum undirliggjandi vanda. Síðan sagði hv. þm. fyrr í dag að hann væri sammála þeim aðvörunarorðum sem fælust í álitum okkar og ræðum. Hv. þm. tók það síðan fram að hann væri það í einu og öllu. Jafnframt bætti hann því við að því miður teldi hann að ekki hefði tekist að grafast fyrir rætur þess vanda sem núna er í ríkisfjármálunum. Ég er viss um að hv. þm. leiðréttir mig ef ég fer hér með rangt mál.

Staðreyndin er sú að ég er hv. þm. að mestum hluta sammála um það sem er að gerast í ríkisfjármálunum. Ég held að hv. þm. meiri hlutans hafi allir, alveg eins og við í minni hlutanum, reynt að vinna starf sitt af kostgæfni. Þeim eru hins vegar reistar skorður. Þær skorður sjáum við t.d. standa tiginmannlegar við vatnsbaukinn í gluggakistunni núna og auðvitað eru aðrir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar skorðurnar við því að vilji hv. þm., meiri hlutans, fái að flæða fram frjáls og óspilltur. Ég skil það, herra forseti, að þeir eru í fjárln. til að fylgja ákveðinni pólitískri stefnu samsteypustjórnar tveggja flokka. Þeir verða þess vegna að fylgja því sem hæstv. ríkisstjórn vill hverju sinni. Að þessu leyti eru þeir brenndir sama marki og flestir ef ekki allir meiri hlutar sem á undan þeim hafa verið. Ég hugsa að þegar sá tími rennur upp að ég kunni e.t.v. að vera í meiri hluta þá þurfi ég að etja kappi við sömu tröll.

Ég held hins vegar, herra forseti, að það væri ákaflega æskilegt ef fjárln. gæti í ríkari mæli unnið störf sín sjálfstætt, tekið minna tillit til sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni og farið meira eftir samvisku sinni og þeim ráðleggingum sem hún fær hverju sinni. Ég held t.d. að það hefði verið ákaflega þarft fyrir fjármál ríkisins og þar með borgarinnar ef hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefði beitt sér meira fyrir þeim skoðunum sem hann hefur látið uppi í fjárln. og líka hér í umræðum í salnum. Hv. þm. er einn af lykilmönnum þess flokks sem fer með fjármálin í ríkisstjórninni. Hann er ákaflega sterkur talsmaður þegar hann beitir sér og ég sakna þess að sjá hann ekki eins og brimbrjót gagnvart því sem mér finnst stundum vera eyðslustefna sem langoftast mætti kalla aðhaldsleysi hjá hæstv. fjmrh. og kollegum hans í ríkisstjórninni.

Mér finnst einnig merkilegt, herra forseti, að sjá og heyra þann mun sem birtist á milli manna, þ.e. annars vegar milli manna sem sitja hér í meiri hluta fjárln. og hins vegar þeirra sem sitja í ríkisstjórninni, einnig milli hæstv. ráðherra annars og sérfræðinga úti í bæ. Hv. þm. Jón Kristjánsson hefur mátt sitja undir því af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, sem e.t.v. er óvenjulegt í þessum sölum, að við höfum gagnrýnt hann, sem talsmann og forustumann ríkisstjórnarinnar hér í salnum í fjármálum, fyrir að sýna of lítið aðhald og eyða og spenna um of. Eðlilega hefur hv. þm. mómælt þessu harkalega og síðast í ræðu sem hann hélt í andsvari við ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Þá mótmælti hann því að hér væru menn að eyða og sólunda eða spenna um of. Ég man ekki hvernig hv. þm. orðaði það.

Nú er það hins vegar svo að hæstv. forsrh. er annarrar skoðunar. Hann er þeirrar skoðunar að menn hafi hugsanlega eytt um of. Ég vísa í því efni, herra forseti, af því að ég tel hæstv. forsrh. afskaplegan trúverðugan dómara í þessu máli, í viðtal sem við hann er í Morgunblaðinu í dag. Hæstv. forsrh. tekur svo til orða um verk þeirra félaganna, tvímenninganna hv. þm. Jóns Kristjánssonar og Einars Odds Kristjánssonar, og ég vitna beint í viðtalið, með leyfi forseta:

,,Hins vegar eru menn að gera sér glaðan dag, kannski dálítið umfram það sem skynsamlegt er.``

Ég hygg að hinn orðvari hæstv. forsrh. hafi þarna rekið sinn hamar rétt í skallann á naglanum og naglann á kaf. Hann er að segja, herra forseti, að forustumenn ríkisstjórnarinnar í hv. fjárln. hafi verið svona á pínulitlu eyðslufylleríi. Þeir voru að gera sér svolítinn dagamun, strákarnir, af því að það var bjart fram undan og heiðríkja víðar en bara í brosi hrekkjusvínanna. Herra forseti. Hæstv. forsrh. er þeirrar skoðunar að þessir ágætu herramenn sem núna sitja í salnum og hlýða á mitt mál hefðu e.t.v. mátt stíga fastar á bremsuna.

Hæstv. forsrh. er í liði með þessum ágætu mönnum og bakkar þá upp af dæmafárri óbilgirni alveg eins og þeir hann. Ef hann kemur hins vegar fram og segir opinberlega, daginn sem við erum að ræða fjárlögin við 3. umr. og enn aukin útgjöld og kallar það svo að menn hafi verið að gera sér dálítinn dagamun, e.t.v. umfram það sem efni voru til, hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir auðvitað ef menn brjóta þetta til mergjar að meiri hluti hv. fjárln. hefur verið að eyða meiru en góðu hófi gegnir. Það er dómur hæstv. forsrh. sem ég tek undir.

Hæstv. fjmrh. hefur að vísu ekkert talað í dag svo ég hafi heyrt til en ég hef hins vegar lesið svipbrigði hans og heyrt hann kalla fram í. Það blasir við af því sem hann hefur látið frá sér fara um stöðu ríkisfjármála að hann er giska glaður með þau. Hvernig getur hæstv. fjmrh. verið annað en glaður þegar menn skila metafgangi? Það eru 16--17 milljarðar í tekjuafgang. Auðvitað hljóta menn að gleðjast yfir því. Hins vegar er engin ástæða til þess að halda því fram að ekki þurfi að grípa til sterkari viðbragða. Auðvitað þarf það, herra forseti.

Staðreyndin er sú að þessi gríðarlegi tekjuafgangur stafar af því að það er mikill og vaxandi viðskiptahalli heldur honum uppi. Hann hefur að vísu smitað svo frá sér að hv. þm. hafa að dómi hæstv. forsrh. talið sig hafa ráð á því að gera sér eilítinn dagamun þó aðrir sérfræðingar séu annarrar skoðunar. Einn þeirra situr hér í salnum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem hefur sagt það í dag að með einhverjum hætti þurfi að grípa til aðgerða. En hann er ekki eini maðurinn sem hefur sagt það, herra forseti.

Í viðtali sem birtist á sömu síðu í Morgunblaðinu og viðtalið við hæstv. forsrh. segir forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson, að óhjákvæmilegt sé að grípa til einhvers konar viðbragða af hálfu stjórnvalda. Hæstv. forsrh. segir á sömu síðu, þegar hann fer í nokkrum orðum yfir stöðu ríkisfjármála og efnahagsstjórnunarinnar og talar út frá þjóðhagsspánni, að í meginatriðum sé spáin hin sama og menn höfðu gert ráð fyrir þó ákveðin frávik séu. Þessi ákveðnu frávik sem hæstv. forsrh. á við er auðvitað viðskiptahallinn. Hins vegar er hvergi að finna í máli hæstv. ráðherra í umræddu viðtali í Morgunblaðinu að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana. Hæstv. forsrh. hefur í raun aðeins ein aðvörunarorð um framtíðina og þau eru ákaflega gild. Hann segir að í kjarasamningum þurfi menn að gæta hófs.

Guð láti gott á vita, allir geta undir það tekið. En eins og ég mun víkja að síðar í ræðu minni þá eru hæstv. forsrh. og hæstv. ráðherrar almennt síðustu mennirnir sem ættu að tala svona. Ef einhverjir hafa kastað sprengju inn í þá samninga sem fara af stað á næsta ári þá er það auðvitað ríkisstjórnin.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. er sem sagt ekki þeirrar skoðunar að eitthvað sérstakt þurfi að gera. Honum finnst staðan alls ekki vera alvarleg í þessu viðtali í Morgunblaðinu í dag. En hvað segir Þórður Friðjónsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar?

Hann segir að niðurstaða hinnar nýju þjóðhagsáætlunar sé alvarleg og kalli á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Herra forseti. Það er rétt að fram komi að þessi viðhorf Þórðar Friðjónssonar, forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, komu fram í dag þegar fyrir lá hvernig fjárlög mundu liggja fyrir í endanlegri mynd ef samþykkt verða samkvæmt tillögu fjárln. og hæstv. fjmrh. Hann veit þegar hann segir þessi orð hver afgangurinn mun verða.

Hann segir eigi að síður að þrátt fyrir það kalli þessi staða á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Þórður Friðjónsson sagði líka að það væri mjög alvarlegt hversu viðskiptahallinn væri að aukast mikið. Hann bætir um betur, herra forseti, og með leyfi forseta, þá sagði hann jafnframt:

,,Það þýðir einhvers konar samdráttaraðgerðir, sé litið til ríkisfjármála.``

[17:15]

Ég verð að spyrja hæstv. fjmrh., sem hefur ekki tekið til máls í dag en á eftir að halda sína ræðu: Er hann sammála því sem Þórður Friðjónsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, segir, í fyrsta lagi að niðurstöður hinnar nýju þjóðhagsáætlunar séu alvarlegar og í öðru lagi að hún kalli á viðbrögð af hálfu stjórnvalda? Og í þriðja lagi, herra forseti, ef hæstv. fjmrh. er sammála forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, hvers konar viðbrögð telur hann þá rétt að grípa til? Það dugar ekki, herra forseti, að koma hingað og tala um að mikill afgangur sé á fjárlögum vegna þess að forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar vissi það þegar hann mælti þessi orð og hann var að kalla eftir öðrum og alvarlegri viðbrögðum. En ef ég dæmi af orðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar og þeirra sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliðsins í dag, þá í besta falli gera menn eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sér grein fyrir að staðan er að versna og er orðin alvarleg, en menn hafa ekki neinar sérstakar áætlanir á takteinum. Spurningin er hvort það verður, eins og mér heyrist á andsvörum hv. þm. stjórnarliða, að vera hlutskipti stjórnarandstöðunnar í þessu efni að koma með tillögur. Mér þykir það bera vott um talsverða uppgjöf af hálfu stjórnarliða. Það eina sem þeir hafa gert andspænis þessum aðfinnsluorðum okkar er að spyrja eftir niðurskurðartillögum okkar. Ég get þess að vísu, herra forseti, eins og þegar hefur komið fram hjá tveimur talsmönnum Samfylkingarinnar í dag og á eftir að koma fram síðar, að þær tillögur sem verið er að dreifa eða verður dreift hér á næstunni af okkar hálfu, gera miklu meira en að þekja þær lítils háttar útgjaldatillögur sem við erum með.

Þetta skiptir sem sagt meginmáli í dag, herra forseti. Fyrir liggur ný þjóðhagsspá og hún er allt öðruvísi og miklu verri en menn gerðu ráð fyrir. Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að ég og hæstv. fjmrh. höfum stundum átt orðastað saman um þróun þjóðarhags á þessu ári. Fyrir kosningar lenti okkur nokkrum sinnum saman. Ég benti á það sem ég taldi þá vera alveg ljósa staðreynd að viðskiptahallinn færi ekki minnkandi heldur mundi hann þvert á móti aukast. Hæstv. fjmrh. var allt annarrar skoðunar fyrir kosningar, en það verð ég að segja honum til tekna að hann var sömu skoðunar eftir kosningar og sagði hér á sumarþinginu að viðskiptahallinn mundi ekki aukast, eins og ég hélt fram, heldur minnka. Þegar kom fram í október sagði hæstv. fjmrh. líka að viðskiptahallinn mundi minnka og taldi þetta bera vott um það að ég hefði lítið vit á þessum málum. En eins og fram hefur komið af hálfu forustu ríkisstjórnarinnar þá telur hún að ég eigi að halda mig við það sem ég hafi vit á, sem eru ákveðin hreistruð kykvendi sem sigla undirdjúpin, en láta vera að tjá mig um þessi mál. Nú hefur hins vegar komið í ljós, herra forseti, að það voru hæstv. forsrh. og fjmrh. sem höfðu rangt fyrir sér í þessu efni, en sá sem hafði rétt fyrir sér í þessari deilu stendur hér. Það má e.t.v. líka halda því fram, herra forseti, að ég hafi að hluta til haft rangt fyrir mér vegna þess að ég gerði mér enga grein fyrir því að viðskiptahallinn mundi sigla svona alvarlega fram úr því sem spáð var. Nú blasir sem sagt við að áætlað er að hann verði 38 milljarðar á þessu ári og því er spáð að hann verði svipaður á næsta ári. Og þó er ekki lengra síðan en í október sem hæstv. ríkisstjórn, gott ef ekki sjálfur hæstv. fjmrh., lét það frá sér fara að þá væri líklegt að hann yrði 29 milljarðar. Aukningin, herra forseti, er 30% og þetta er síðan í október. Þetta finnst mér ekki bera vott um góða spádómsgáfu. En það skiptir minnstu máli, herra forseti. Það sem skiptir máli er að stjórnarandstaðan er búin að benda á þessa þróun allar götur frá því í apríl/maí á þessu ári og hæstv. ríkisstjórn hefur jafnan andæft þessu. Nú blasir það við að hæstv. ríkisstjórn hafði rangt fyrir sér.

Það skiptir máli að menn nemi stundum staðar, staldri við og fari yfir stöðuna. Það hefði hæstv. ráðherra átt að gera ásamt meiri hluta fjárln. núna fyrir nokkrum dögum þegar þessi uggvænlega þróun varðandi viðskiptahallann var staðfest af Seðlabankanum 9. desember, en sama dag kom það líka fram af hálfu Hagstofunnar að verðbólgan væri enn að aukast. Fyrir nokkrum dögum birti hún niðurstöður sínar sem sýndu að verðbólgan síðustu 12 mánuði er í 5,5%, 5,6%. Á sama tíma hefur hún verið 1,3--1,7% í þeim löndum sem við berum okkur jafnan saman við. Þórður Friðjónsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, segir skýrt í áliti sínu að það skipti ákaflega miklu máli að verðbólgan hér á landi verði ekki á næstu missirum langt yfir því sem gerist hjá þeim löndum sem við erum að keppa við. Það liggur sem sagt ljóst fyrir, herra forseti, að verðbólgan er ekki að minnka þvert ofan í það sem hæstv. ráðherrar héldu fram fyrir einum, tveimur mánuðum, heldur er hún aftur að aukast og allt bendir til þess að á næsta ári verði hún 4,5%. Þetta er ég viss um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er mér sammála um og er aðsteðjandi vá. Spurningin er með hvaða hætti við förum í það að bjarga þessu ástandi. Það er eðlilegt að við þessar aðstæður og á þessum tímapunkti spyrji stjórnarandstaðan hæstv. fjmrh. og þá sem fara fyrir ríkisstjórninni innan fjárln. hvernig eigi að bregðast við þessari stöðu. Ég spyr sérstaklega hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að þessu. Hvers vegna? Vegna þess að hann er sá sem hefur helst gengið fram fyrir skjöldu og sýnt það með ræðum sínum í þessum sal að hann skilur þetta ástand og þessa þróun betur en aðrir. Hann ber líka meiri ábyrgð vegna þess að hann er forustumaður Sjálfstfl. sem fer með fjármálin í ríkisstjórninni innan fjárln. Mér þætti þess vegna ákaflega gaman, herra forseti, að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson útfæra skoðanir sínar á þessu máli í ítarlegri ræðu eins og ég veit að hann á eftir að flytja hérna þegar gengið er fram yfir hálfsjö í kvöld, herra forseti.

Herra forseti. Við höfum í umræðum hér rætt mikið vanda heilbrigðiskerfisins. Og ég get ekki annað en mótmælt því þegar hv. þm. Jón Kristjánsson vill einskorða þá umræðu við fjáraukalögin, en það mátti skilja á honum í dag í andsvari við mig að þetta væri óþörf umræða vegna þess að við hefðum í rauninni verið búin að ræða þetta við umræðuna sem fór fram um frv. ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga. En það er auðvitað ekki svo. Þetta er stórt og mikið vandamál og þetta er e.t.v. helsta vandamálið sem hægt er að greina í sjálfum ríkisrekstrinum. Útgjöld heilbrigðisgeirans eru ekki bara að vaxa vegna þess að mjög miklar launahækkanir hafa orðið. Í þeirri rannsókn sem hv. fjárln. hefur gert á stöðu þessa málaflokks kemur líka fram að önnur útgjöld eru að vaxa ansi mikið. Ég vek athygli á því að sú fjárþörf sem kom fram innan þessa málaflokks við úttekt Ríkisendurskoðunar sýndi að þriðjungurinn stafaði af aukningu útgjalda á rekstrargjöldum sem ekki tengist launum. Og maður veltir fyrir sér hvort hægt sé að sjá einhver merki þess í fjárlagafrv. að ríkisstjórnin og þeir sem halda um hina fjárhagslegu tauma séu á einhvern hátt að reyna að stemma stigu við þeim vexti. Svo er alls ekki, herra forseti, ég sé enga viðleitni til þess. Við höfum áður farið yfir annan sérstakan málaflokk sem er mjög áberandi innan heilbrigðisgeirans sakir þess hversu ört hann er að vaxa um þessar mundir, en það eru lyfjaútgjöld. Hæstv. heilbrrh. sem hér er stödd við umræðuna hefur greint frá því að þarna sé við ramman reip að draga, stöðugt séu að koma á markaðinn ný lyf og ákaflega útgjaldafrek. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og þá er spurningin hvernig í ósköpunum við reynum að taka á þessu. Innan heilbrigðisgeirans hafa menn reynt að fara þá leið að setja upp forgangsröðun. Ég held að nýlokið hafi störfum nefnd sem fjallaði um hvernig ætti að forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins. Við þurfum e.t.v. að beita svipuðum vinnubrögðum við einstaka málaflokka innan geirans. Ef við tökum til að mynda lyfjaútgjöldin, þá held ég að óhjákvæmilegt sé að sérstakt átak verði gert til að kanna þann málaflokk.

Í forsendum fjárlagafrv. kemur fram að gert er ráð fyrir 12% vexti milli ára og þetta er byggt á þróun hér og líkast til erlendis líka. Það hefur einnig komið fram að hæstv. heilbrrh. og fjmrh. lögðu til á síðasta ári að þessi útgjaldaliður yrði takmarkaður með þeim hætti að milli 1998 og 1999 mundu sparast 300 millj. kr. Við vitum öll hvernig þeirri glímu lauk. Henni lauk með því að eftir því sem árinu vatt fram voru stöðugt að berast upplýsingar um aukin útgjöld til þessa málaflokks. Þegar við hófum okkar vinnu höfðu útgjöldin aukist um 300 millj. og þegar fjárln. var um miðbik vinnunnar voru þau komin upp í 500 millj. og ég held að útgjöld málaflokksins sem áttu að lækka um 300 millj. hafi aukist um 700 millj. Og miðað við þá 12% verðhækkunarforsendu á þessari dýru vöru sem er að finna í fjárlagafrv. bendir náttúrlega allt til þess að ef ekkert verður að gert verði þetta komið í 5 milljarða á næsta ári.

Ég gef lítið, herra forseti, fyrir þær örfáu línur í fjárlagafrv. þar sem sett er fram sú hógværa ósk af hálfu okkar allra og ríkisstjórnarinnar og meiri hluta og minni hluta fjárln. að þessi málaflokkur verði skorinn um 1.000 millj. Hvers vegna skyldi okkur takast að skera hann um 1.000 millj. þegar okkur tókst ekki að skera hann um 300 millj. í fyrra? Sá kostur er vissulega uppi að hæstv. heilbrrh., eða eftir atvikum fjmrh., hafi einhvers konar áætlanir sem kynnu að duga miklu betur en í fyrra. Ef svo er þá hafa þessir hæstv. ráðherrar eða forustumenn flokka þeirra í meiri hluta fjárln. ekki, þrátt fyrir að vera þráspurðir um það, getað lagt fram slíkar áætlanir. Þarna tel ég, herra forseti, að sé ein af mikilvægum forsendum frv. að því er varðar heilbrigðismálin sem mun alls ekki standast. Ég tel að hætta sé á því að í þessum tiltekna geira muni útgjöld ríkisins fara nokkur hundruð millj. og e.t.v. milljarð fram úr áætlunum vegna þess að menn hafa ekki enn þá sett fram ítarlega útfærslu á því hvernig á að ná þessum sparnaði. Ég verð að spyrja hæstv. fjmrh.: Er einhver vinna í gangi af hálfu fjmrn. og heilbrrn. sem miðar að því að draga úr slíkum útgjöldum? Ef hæstv. fjmrh. undrast af hverju ég spyr hann en vísa þessu ekki eingöngu til kollega hans í heilbrrn., þá rifja ég það upp að þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. var við völd milli 1991 og 1995 og átti í ákaflega miklu basli með einmitt þennan málaflokk, var sett upp samvinna milli þeirra tveggja flokka, sem fóru með þau ráðuneyti, til þess að reyna að koma taum á þensluna í þeim málaflokki, þ.e. lyfjum.

Það sem einkenndi aukningu útgjalda í heilbrigðisgeiranum voru hins vegar samningar sem voru gerðir. Kjarasamningar við lækna og hjúkrunarfræðinga leiddu til þess að útgjaldaþenslan varð miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir í upphafi og raunar meiri en nokkurn óraði fyrir. Ég tel það gagnrýnivert að það mál hafi farið með slíkum hætti. Það kom ítarlega fram, bæði af hálfu Ríkisendurskoðunar og líka fulltrúa fjmrn. við samræður innan fjárln., að gert hafði verið ráð fyrir tilteknum útgjöldum til þessa sem námu einum milljarði, en þegar upp var staðið urðu útgjöldin margfalt meiri. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Var ekkert eftirlit með útgjaldaþenslunni í tengslum við þetta? Hæstv. heilbrrh., eins og ég hef rakið í þessari umræðu, greindi frá því í fjárln. að henni hefði orðið ljóst um miðjan maí að yfir 100 stofnanir stefndu þá rækilega fram úr fjárlögum og hún sagði heilbrrn. hafa gert hæstv. fjmrh. viðvart. Ég verð því að ganga eftir því gagnvart hæstv. fjmrh. hvernig hann brást við því þegar hann fékk slíkar upplýsingar frá heilbrrn. Til hvaða aðgerða greip hann? Enn verð ég að nefna það líka, herra forseti, þegar þingmenn í fjárln. gengu nokkuð harkalega eftir því við hæstv. heilbrrh., þegar hún kom til fundar við nefndina, hvernig ráðuneytið hefði haldið á samningamálum innan málaflokksins, þá greindi hæstv. ráðherra frá því að því miður hefði þetta verið ráðuneytinu ofviða. Innan ráðuneytisins hefðu einungis verið fjórir starfsmenn sem hefðu getað tekið á þeim málaflokki, en hún hefði hins vegar brugðist við með þeim hætti að fjmrn. hefði verið gert viðvart um það, eða svo ég noti orðrétt það sem hæstv. ráðherra sagði: ,,ekki væri nægileg kunnátta í samningamálum innan heilbrrn.`` Ég tel að hæstv. heilbrrh. hafi gert rétt í þessu. Hún átti þegar hún stóð frammi fyrir þessari stöðu að láta hæstv. fjmrh. vita af því hvernig málið væri að þróast. Vegna þess að það er innan þess ráðuneytis, fjmrn., sem þekkingin er fyrir hendi, eins og ég veit að hv. þm. Hjálmar Jónsson veit. Þar hafa menn útfært samninga og þar er sérfræðikunnáttan fyrir hendi og þess vegna var rétt hjá hæstv. heilbrrh. að fara þá leið. Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Með hvaða hætti brást hann við því þegar hann fékk upplýsingar frá hæstv. heilbrrh. um að það væri ráðuneytinu ofviða að taka þátt í útfærslu kjarasamninga vegna þess að þar væri ekki kunnátta fyrir hendi?

[17:30]

Að lokum, herra forseti, áður en ég lýk algerlega við heilbrigðismálin er óhjákvæmilegt að rifja upp að við höfum við 2. umr. og líka við nokkrar umræður um fjáraukalög, rætt ákveðna málsmeðferð af hálfu fjárln. Þetta er í þriðja sinn, að ég hygg, sem fjárln. tekur þátt í því með þessum eða skyldum hætti að hreinsa upp þann slóða sem skapast hefur ófyrirséð innan heilbrrn. Það er ekki auðvelt spor að taka, hvorki fyrir minni hlutann né meiri hlutann. Þess vegna var gengið mjög rækilega eftir því af hálfu minni hlutans hvernig ætti að tryggja að við stæðum ekki aftur í sömu sporum að ári. Það var rætt hér og kemur fram að nokkrum hluta í nefndarálitum meiri hlutans hvernig ætti að setja upp ákveðið kerfi til að koma í veg fyrir að þetta henti aftur. Það var m.a. rætt um ákveðnar viðmiðunarreglur sem fjárveitingar áttu að grundvallast á. Ég hlýt að rifja það upp, herra forseti, að við gengum nokkuð rækilega eftir því við fyrri umræður gagnvart hv. þm. Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að það ætti að tryggja að þessar reglur kæmu fram og héldu. Því var þá lofað af hálfu hv. þm. Hjálmars Jónssonar að þessar reglur kæmu fram fyrir 3. umr. og hægt væri að skoða útfærslu þeirra. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar gengum eftir því að þetta yrði kannað rækilega í fjárln. milli 2. og 3. umr. Það hefur ekki gerst, herra forseti. Málið er enn í jafnlausu lofti og áður. Ég hlýt að rifja það upp að hv. þm. Hjálmar Jónsson sagði í ákaflega merkri ræðu, einni af mörgum sem hann hefur haldið um heilbrigðismálin, eftirfarandi þegar ég spurði hann hvar þessar reglur væru, með leyfi forseta: ,,Viðmiðunarreglur sem munu liggja fyrir við 3. umr. fjárlaga``. Ég spyr enn hv. þm. Hjálmar Jónsson, hvar eru þessar viðmiðunarreglur? Hvar eigum við að fá tryggingu fyrir því, herra forseti, að það ástand sem hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur nú kallað ýmsum skemmtilegum nöfnum endurtaki sig ekki? Það má ekki gerast aftur að það þurfi að taka eitt tiltekið ráðuneyti vegna framúrkeyrslu á fjárlögum nánast í gjörgæslu eða beita þau eins konar lögreglueftirliti eins og einn hv. þm. orðaði af mikilli orðsnilld í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu.

Herra forseti. Ég hef nú farið í allt of stuttu máli yfir þá þætti sem ég tel nauðsynlegt að við ræðum svolítið betur. Ég er þeirrar skoðunar að of mikil lausatök séu á fjármálum ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar að sú mikla velsæld sem ríkir innan fjmrn., þar sem gríðarlegur viðskiptahalli skapar ómældar tekjur, hafi svæft menn á verðinum og gert það að verkum að þar er komið upp ákveðið andvararleysi, herra forseti. Ég hef við fyrri umræður nefnt nokkur dæmi um það og hefði gjarnan viljað að hæstv. fjmrh. hefði svarað þeim spurningum sem ég bar þá fram til hans. Svo var nú ekki, herra forseti. Ég ætla ekki að ergja hæstv. ráðherrann með því að endurtaka það. En ég hlýt samt vegna þess að hv. þm. Jón Kristjánsson, sem illu heilli er nú genginn brottu, nefndi það í umræðunni fyrr í dag, að það þýddi ekki fyrir stjórnarandstöðuna að koma og tala um aðhaldsleysi og lausatök í fjármálum án þess að nefna sérstök dæmi.

Í framhaldi af því, herra forseti, vil ég rifja upp að við 1. umr. fjárlaga nefndi ég ein tuttugu dæmi. Ég valdi þrjú sérstaklega úr sem ég ræddi bæði við 2. umr. fjárlaga og 1. og 2. umr. fjáraukalaga og vil þess vegna halda því til haga, herra forseti, að stjórnarandstaðan hefur bent á fjöldann allan af dæmum um það sem hægt er að kalla lausatök. Mestu lausatökin og verstu birtast í því hvernig fjármál heilbrigðisgeirans þróuðust á þessu ári og því síðasta. Ég óttast auðvitað, herra forseti, að sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna verði erfiðari fyrir þá sök að ríkisstjórnin stóð ekki vaktina þegar menn voru í útfærslu þeirra samninga sem ég nefndi áðan.

Án þess að ég ætli að fara mjög náið út í þau efni, herra forseti, blasir samt við að í greinargerð Ríkisendurskoðunar voru lögð fyrir okkur dæmi um hækkanir mjög fjölmennra hópa frá árunum 1997 og fram á þennan dag. Það er alveg ljóst að þeir hópar sem eiga eftir að semja um kjör sín innan ríkisgeirans, ég nefni t.d. af því við vorum að tala um sjúkrahúsin að sjúkraliðar og ASÍ-hópar, sem tengjast þeim geira, munu að sjálfsögðu bera sig saman við þetta. Ég held líka eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar að það sé heldur umhendis fyrir hæstv. forsrh. að ganga fram á sviðið og biðja menn með vænum orðum að haga sér vel í komandi kjarasamningum þegar horft er til þess að viðmiðin, sem menn munu setja sér í þeim samningum, eru þær tölur sem hæstv. ráðherrar vöktuðu yfir þegar verið var að ganga frá kjarasamningunum innan heilbrigðisgeirans. Þær hækkunartölur, sem menn sáu þar, hljóta að vera á borðinu þegar að menn fara að semja um laun á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna tel ég, herra forseti, að lausatökin sem við höfum séð á ríkisfjármálunum, muni fyrst koma fram af fullum þunga og birtast með fyllsta þunga þegar menn ganga í þá samninga vegna þess að það er ríkisstjórnin sem hefur gefið fordæmið, herra forseti.