Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:47:04 (3006)

1999-12-15 17:47:04# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Enn einu sinni get ég ekki annað en tekið ofan fyrir mennturum mínum í hagstjórnarfræðum. Ég er sammála hv. þm. í hverju einasta orði sem hann sagði áðan, ég er sammála honum um umframeyðsluna í þjóðfélaginu og það óhóf sem ríkir þar. Það eina sem ég sakna, af því að ég hef sagt að enginn maður hafi kennt mér jafnmikið á þessu hausti um hagstjórn og hann, er til hvaða ráða við ættum að grípa núna, herra forseti. Það eina sem ég sakna í ræðu hans, til að ég geti haldið áfram að vera tiltölulega eftirtektarsamur lærisveinn og geti borið fram þau spöku vísdómsorð sem honum hrjóta stundum af vörum í fjárln., er hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur að við þurfum að gera núna til að ráða bót á þeim vanda. Ég er honum sammála um að okkur beri að hlíta aðvörunarorðum þeirra manna sem við teljum að hafi mesta þekkingu í þessum efnum. Ég gæti talið upp félaga hans í Seðlabankanum, fyrrv. menntmrh. og núv. seðlabankastjóra, ég gæti talið upp vini hans í Þjóðhagsstofnun og ég gæti talið fleiri upp. Þeir eru allir sammála honum og ég er sammála honum. En hvað er það sem við eigum að gera til að ráða bót á þessu? Það er það eina sem vantar inn í þær kliðmjúku ræður hv. þm. sem hljóma hér svo fagurlega, þannig að manni finnst stundum að maður sé á eins konar sinfóníutónleikum þegar hv. þm. talar. Það vantar bara þetta eina, en ég veit að það kemur.