Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:49:44 (3008)

1999-12-15 17:49:44# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur aldrei spurt mig fyrr um það hvort ég mundi fylgja tillögum um skattahækkanir eða einhvers konar skyldusparnað. (EOK: Jú, jú.) Nei, herra forseti, en ég get bara lýst því yfir að ég er fylgjandi því að skoða það út í hörgul og sennilega eigum við að grípa til einhvers konar skyldusparnaðar. Ef ríkisstjórnin leggur fram tillögur um skattahækkanir, þá er ég a.m.k. reiðubúinn til að skoða það. Ég bendi hv. þm. á að ég hafði kjark til þess í miðri kosningabaráttu að segja að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar væru vitleysa og hef vafalaust uppskorið það eitt að tapa fjölmörgum atkvæðum. Allt það sem hv. þm. sagði nefnilega að við þyrftum að gera bentum við á fyrir kosningar. Ég get bent á mistök ríkisstjórnarinnar og t.d. aðferðina við að einkavæða bankana sem augljóslega leiddi til aukinnar þenslu. Hvað getum við gert til viðbótar, herra forseti, sem hv. þm. nefndi ekki? Það er að reyna að draga úr umsvifum ríkisins. Það er vissulega erfitt og er ákaflega auðvelt fyrir mig í stjórnarandstöðu að koma hér og segja það. En það er eigi að síður eitt af því sem við verðum að gera og okkur verður hrint fyrir það bjarg ef svo fer sem horfir í efnahagsmálum þjóðarinnar núna. Við munum innan tíðar neyðast til að grípa til harkalegra aðhaldsaðgerða.