Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:53:13 (3010)

1999-12-15 17:53:13# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir tiltölulega vænt um hv. þm. Kristján Pálsson og þess vegna ætla ég að hlífa honum við því að fara að ræða hér Fljótsdalsvirkjun.

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvar þessi vá væri. Ég spáði því fyrir sjö til átta mánuðum að viðskiptahallinn mundi ekki minnka heldur aukast. Hann hefur aukist um meira en 30%. Ég spáði því líka þá að verðbólgan mundi aukast og það voru reyndar fleiri sem gerðu það, hún hefur illu heilli aukist meira en ég spáði. Allt það sem við vorum að segja þá hefur því illu heilli gengið eftir. Það er ekki bara ég, herra forseti, sem hef haft uppi slík varnaðarorð, heldur líka ýmsir ágætir þingmenn meiri hlutans t.d. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og við höfum verið að ræðast við um þessi mál hér í dag.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það sem ég hef verið að segja í dag hef ég sennilega sagt tvisvar, þrisvar, jafnvel fjórum sinnum áður hér í þessum sölum. Og það er líka rétt hjá hv. þm. að ég hef margoft varpað fram sömu spurningunum til ráðherra. Nú ætla ég að upplýsa hv. þm. um hvernig á því stendur að ég margtygg þessar spurningar. Ég hef ekki fyrr en í dag fengið vott af svörum. Hv. formaður fjárln. hefur haldið eina ræðu fyrir utan nokkur andsvör svo ég viti til, en hæstv. fjmrh. hefur enn ekki haldið neina ræðu. Ég hef varpað til hans u.þ.b. tíu spurningum. Ég varpaði til hans sjö spurningum áðan og hann svaraði tveimur. Hann á enn eftir, herra forseti, að svara þeim spurningum um heilbrigðismálin og þátt hans í þeim aðgerðum sem bersýnilega þurfti að grípa til upp úr maí sl., en enginn gerði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hef engin svör fengið um þátt hans í þeim. Er það þá nokkuð skrýtið, herra forseti, að menn komi hingað og reyni hið fornkveðna að láta dropann hola steininn? Nei. Ég mun halda áfram eftir því sem föng gefast að spyrja þessara spurninga vegna þess að þær verða lykilatriði málsins og þær varða það hvernig við viljum sem fulltrúar skattborgaranna fara með peninga þeirra, peninga sem við eigum ekki sjálf.