Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:55:28 (3011)

1999-12-15 17:55:28# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að rifja það upp fyrir hv. þm. að núv. stjórnvöld, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, vinna hörðum höndum að því að reyna að taka á minni háttar vandamálum sem ég mundi kalla varðandi fjármál ríkisins. Aftur á móti er verið að taka á stóru málunum sem eru vandamál landsbyggðarinnar. Þá tölum við fyrst og fremst um flóttann af landsbyggðinni en með þessum fjárlögum er verið að sýna það svo sannarlega að það á að taka á því máli. Ég hef ekki orðið var við að hv. þm. hafi neina lausn á því.

Hv. þm. ætlar að hlífa mér við að tala um Fljótsdalsvirkjun. Ég veit ekki hvers vegna hann er að hlífa mér við því, það er engin ástæða til þess, hv. þm. Ég held að það sé fyrst og fremst hvernig hv. þm. hefur staðið að því máli sem getur vafist fyrir honum í umræðu þegar þar að kemur. Ég held, herra forseti, að með þessum fjárlögum muni sem betur fer takast að gera það sem þarf til að fjárhagur ríkisins verði viðunandi og ég vona svo sannarlega að almenningur sníði sér stakk eftir vexti.