Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 17:56:48 (3012)

1999-12-15 17:56:48# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Pálssyni, ég vona að það takist af hálfu hæstv. ríksstjórnar að ráða bug á þessum minni háttar vandamálum eins og verðbólgu sem er þrefalt til fjórfalt meiri en í samkeppnislöndum okkar og viðskiptahalla sem enginn virðist geta ráðið við. Þetta er auðvitað ekki minni háttar vandamál, herra forseti. Þetta eru meiri háttar vandamál. Þau eru svo meiri háttar að forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar segir í Morgunblaðinu í dag að hér sé við alvarlegan vanda að etja og segir að grípa þurfi til frekari aðgerða en þeirra sem koma fram í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar. Vandinn sem við okkur blasir er sá, herra forseti, að við erum með meiri hluta Alþingis sem skellir skollaeyrum við aðvörunarorðum af þessu tagi. Við höfum því miður allt of mikið af þingmönnum eins og hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem virðist ekki vilja hlusta á það sem sérfræðingar hafa fram að færa. Dómur þeirra er alveg skýr. Við erum því miður ekki á réttri braut, dómur félaga hv. þm. úr fjárln., hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar er á nákvæmlega sömu lund.